Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[17:54]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Tómasi A. Tómassyni fyrir mjög góða ræðu. Hv. þingmaður minnti okkur á það að öll eldumst við og við þurfum að búa fólki mannsæmandi umhverfi þegar það eldist. Hv. þingmaður minnti okkur einnig á að það hvernig við eldumst og það hvernig heilsa okkar er og hvernig minni okkar og annað er er mjög breytilegt frá einum einstaklingi til annars. Það er því mjög mikilvægt að við séum með lausnir þegar kemur að því t.d. hvernig fólk vill búa þegar það eldist, að við séum ekki að reyna að setja alla í eitt og sama boxið. Hjúkrunarheimili eru góð fyrir þá sem þurfa á því að halda en aðrir, jafnvel makar viðkomandi, geta verið í miklu betra ástandi en svo að þeir þurfi það eftirlit og umsjón sem er á hjúkrunarheimilum.

Mig langar að segja að ég heimsótti eitt svona heimili hér í Reykjavík áður en kosningarnar voru og það virkilega opnaði augu mín fyrir því sem er hægt að gera ef við hugsum aðeins út fyrir boxið. Þar var búið að tengja saman þar sem við hefðum í gamla daga kallað elliheimili og hjúkrunarheimili við íbúðir sem aldraðir voru með, allt tengt saman á einum stað sem gerði það að verkum að þú gast púslað þessu saman en veitt alla þjónustu.

Mig langaði bara örstutt að spyrja hv. þingmann: Skuldum við ekki þessum kynslóðum (Forseti hringir.) sem sköpuðu það velferðarsamfélag sem við búum í að við veitum þeim ánægjulegt ævikvöld?