153. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2022.

dagskrártillaga.

[13:02]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Skammt er eftir af árinu og fyrir liggja ýmis brýn dagsetningarmál sem þingið þarf að klára og sjálf fjárlög. Í því ljósi er í rauninni óskiljanlegt að forseti tefli í tvísýnu farsælum lokum þingársins með því að setja útlendingafrumvarpið á dagskrá á þessum tímapunkti, mál sem er hvorki brýnt né háð einhverri dagsetningu. Eina ástæðan fyrir því að setja það á dagskrá er að þjóna því sem er farið að verða þráhyggjukennd hegðun stjórnarliða í þá átt að draga úr réttindum umsækjenda um alþjóðlega vernd. En forseti, það þykir mér ekki vera góð ástæða fyrir því að troða því máli á dagskrá. Ég legg til að það sé tekið út og saltað til nýs árs ef stjórnarliðar eru enn á því á þeim tímapunkti að keyra það áfram af þessu afli.