153. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2022.

dagskrártillaga.

[13:04]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Andrés Ingi Jónsson hefur gert grein fyrir því hvers vegna hann vill láta taka útlendingamálið af dagskrá. En ég vil bæta við að auðvitað liggja líka fyrir beiðnir varðandi það mál um nánari greiningu á þeim áhrifum sem frumvarpið hefur á stjórnarskrárbundin réttindi og réttindi sem varin eru með mannréttindasáttmálum sem Ísland er aðili að, hefur fullgilt og lögfest hér á landi. Við þeim beiðnum hefur ekki verið orðið. Allsherjar- og menntamálanefnd hefur neitað hv. þingmanni um greiningu á því hvort þessi lög standist stjórnarskrá og aðra mannréttindaskuldbindingar sem Ísland hefur gengist undir. Það er auðvitað út af fyrir sig óásættanlegt. Virðulegi forseti. Það gerir það að verkum að auðvitað þarf þessi greining að fara fram áður en er eitthvað hægt að taka þetta mál fyrir í 2. umr. Því vil ég, rétt eins og hv. þm. Andrés Ingi Jónsson, gera það að tillögu minni að við tökum þetta mál út af dagskrá, söltum það fram yfir áramót og látum fara fram almennilega greiningu á réttaráhrifum þess.