153. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2022.

dagskrártillaga.

[13:08]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er ekki svo að þetta mál sé fullunnið. Það er ótvíræður meiri hluti fyrir þessu máli hér í þingsal. Þingflokkar Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Framsóknar og Sjálfstæðisflokks munu öll sem eitt styðja breytingar á útlendingalögum sem munu hafa í för með sér skerðingu á réttindum fólks á flótta. Við þurfum ekkert að hafa áhyggjur af því að það verði ekki raunin þannig að ég skil ekki hvað meiri hlutinn er að óttast að fresta þessari atkvæðagreiðslu fram í janúar.

Það sem hins vegar liggur fyrir er að það er verið að gera grundvallarbreytingu á verklagi lögreglu. Það er verið að taka núna ákvörðun samkvæmt breytingartillögu um það að lögreglan verði ákvörðunaraðili í málum fólks á flótta en ekki bara framkvæmdaraðili með ákvörðunum stjórnvalda. Þetta er gert án þess að spyrja lögregluna hvort hún kæri sig yfirleitt um þetta. Þetta er grundvallarbreyting á þeirra störfum og ég held að það verði að spyrja a.m.k. lögregluna hvort hún kæri sig um þetta, að verða allt í einu að ákvörðunaraðila (Forseti hringir.) um þjónustuskerðingu fólks á flótta. (Forseti hringir.) Það er alveg ótrúlegt að leyfa þessu bara að fara einhvern veginn svona inn í þingsal (Forseti hringir.) án þess að spyrja þá sem eiga að sýsla með málið. Það liggur á.