153. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2022.

dagskrártillaga.

[13:11]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég er þeirrar skoðunar að þetta sé skynsamleg tillaga. Það hefur auðvitað margt breyst í vetur frá því að þetta mál var lagt fram, það hefur verið lagt fram nokkrum sinnum áður. Það er þá einna helst það að núna hafa tveir flokkar, Framsóknarflokkurinn og Vinstrihreyfingin – grænt framboð, ákveðið að styðja þetta mál í einu og öllu. Það þýðir auðvitað að þetta mál kemur til afgreiðslu hér á þinginu og til atkvæðagreiðslu von bráðar. En það liggur hins vegar ekkert á því að klára það fyrir jól því að eins og bent hefur verið á er það ekki rétt sem kom fram hjá hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur að málið sé fullunnið í allsherjar- og menntamálanefnd. Það var tekið út úr nefndinni í ágreiningi. Það voru nokkrir þingmenn sem greiddu atkvæði gegn því að málið færi inn í þingsal, einfaldlega vegna þess að það hafa komið upp mjög sterkar röksemdir fyrir því að það þurfi að fara betur yfir það hvort frumvarpið samræmist stjórnarskrá. Það er eitt atriði. Svo er hægt að tína til nokkur önnur. Í ljósi þess að það er engin tímapressa á málinu þá held ég að það væri skynsamlegt, til að liðka fyrir öðrum þingstörfum og öðrum þingmálum, að ýta þessu fram yfir áramót. Það gefur okkur bæði tíma til að klára málin núna fyrir jólin og gefur okkur tíma til að fara betur yfir útlendingamálið sjálft og er ekki vanþörf á.