dagskrártillaga.
Herra forseti. Ég kem hér upp til að reyna að liðka fyrir þingstörfum og draga úr áhyggjum félaga minna í stjórnarandstöðunni af umræddu máli því að þetta mál er að engu orðið, nú lagt fram í fimmta sinn og hefur verið þynnt út í hvert einasta skipti. Jafnvel eftir síðustu tilraun, fjórðu tilraunina, þegar Sjálfstæðismenn töldu sig hafa vilyrði fyrir því að fá að klára málið hafandi sjálfir hent í gegn máli Framsóknarflokks og Vinstri grænna sem enn jók á vandann í þessum málaflokki, þá virðist ekki vera staðið við það eða menn hafa óttast að það yrði ekki staðið við það og þynntu málið enn meira út. Þetta er ekkert til að hafa áhyggjur af. Þetta mun ekki hafa nein raunveruleg áhrif á það gríðarlega stóra viðfangsefni sem blasir nú við okkur í hælisleitendamálum. Ég tel því skynsamlegast, herra forseti, að ljúka þessu af. Ef maður tryði því að stjórnarflokkarnir myndu nýta tímann fram yfir áramót til að bæta málið (Forseti hringir.) og gefa því einhverja vigt myndi ég kannski styðja þessa tillögu, en það er engin von til þess.