dagskrártillaga.
Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að setja út á dagskrárvald forseta og tel eðlilegt að þetta mál komist á dagskrá enda er það fullunnið. En ég heyri hér á umræðunni um þessa atkvæðagreiðslu að við erum farin að ræða málefnið sjálft og nefndarálitin og þess vegna held ég að það sé þeim mun meiri ástæða til þess að við komumst í þá umræðu. En mér láðist að nefna það hér áðan og ég vildi bara vekja athygli þingheims á því að með nefndaráliti meiri hlutans er líka breytingartillaga. Það er bráðabirgðaákvæði sem er ætlað að ná utan um börn og fjölskyldur þeirra sem hafa hér ílenst, aðallega vegna Covid og þess að stjórnvöld hafa ekki getað látið fara fram frávísanir. Ég vil bara hvetja þingheim til að kynna sér þetta bráðabirgðaákvæði sem ég held að sé mikilvægt innlegg og mikilvæg ástæða til þess að við klárum umræðuna um þetta stóra og mikilvæga mál. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir ræðu sína áðan og ég held einmitt að við séum með mjög gott mál í höndunum. En ég minni líka þingheim á það (Forseti hringir.) að þetta frumvarp er ekki upphaf og endir umræðunnar um þann mikilvæga málaflokk sem eru útlendingar á Íslandi sem við viljum (Forseti hringir.) og eigum að bjóða velkomna og ég vænti þess að hér verði frekari umræðu um þann mikilvæga málaflokk og það verði ekki einskorðað við þetta frumvarp sem hér er.
(Forseti (BÁ): Forseti minnir á að ræðutími er takmarkaður við eina mínútu þegar þingmenn taka til máls um atkvæðagreiðslu.)