153. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2022.

dagskrártillaga.

[13:23]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Í frumvarpinu sem verið er að leggja til að henda hérna burt eru einmitt, eins og hefur komið fram, vísbendingar um það, mjög góðar vísbendingar, að það sé verið að brjóta á stjórnarskrárvörðum réttindum. Það er verið að setja það hérna fremst á dagskrá á eftir fjárlögum, störfum þingsins, fram yfir eingreiðslu almannatrygginga, einfaldlega af því að við munum vera hérna til að tala um það hvernig ríkisstjórnin er að brjóta á stjórnarskrárvörðum réttindum fólks. Þangað til það verður lagað, mjög einfaldlega, þá verðum við náttúrlega sökuð um málþóf til að koma í veg fyrir eingreiðslu öryrkja. Þetta er bara fáránlegt. Auðvitað á rétt forgangsröðun í dagskrá að vera þannig að við tökum alla vega eingreiðsluna á undan, það er ekkert flókið við það. En síðan eigum við auðvitað að fá þessi álit sem ráðuneytið trassaði sjálft að búa til. Þetta frumvarp er ekki fullbúið. Það er mjög skýrt og mjög aðgengilegt fyrir alla sem vilja skoða það á heiðarlegan hátt þannig að það er ekkert nema sjálfsögð krafa að biðja um að þessu máli verði hent út af dagskrá. Annars gerist bara hið fyrirsjáanlega, þið vitið öll hvernig þetta virkar.