153. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2022.

dagskrártillaga.

[13:24]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Vegna orða formanns hv. allsherjar- og menntamálanefndar þá er það ekki svo að það sé nauðsynlegt að breyta hér lögum og lögfesta þetta bráðabirgðaákvæði til þess að þessi hópur fólks fái hér dvalarleyfi. Það er heimild í útlendingalögunum nú þegar að veita þessu fólki dvalarleyfi á Íslandi. Það er hægt að beita ákvæði um mannúðardvalarleyfi vegna aðstæðna þeirra vegna þess að þau eru búin að vera hérna lengi út af Covid. Það er hægt að taka ákvörðun um það að þessi börn og fjölskyldur þeirra beri ekki ábyrgð á þeim drætti sem hefur orðið á brottvísunum sem varð vegna Covid. Það er hægt að túlka lögin með ýmsum hætti og það er einmitt eðli útlendingalaganna að það er svo mikið matskennt þar inni. En það er líka hægt að taka ákvörðun um að setja mál um eingreiðslu öryrkja fremst á dagskrána til þess að við getum afgreitt það og það sé hægt að borga þeim þetta út tímanlega fyrir jól. Það er ákvörðun meiri hlutans að hafa það ekki þannig. Við skulum muna það.