153. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2022.

dagskrártillaga.

[13:31]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Já, ég held það viti allir hvar ég stend í útlendingamálunum, en ég ætlaði ekki að ræða um það. Ég ætlaði að ræða það hversu — það er ekki ósanngjarnt, það er ekki — það er búið að nota mörg orð hérna sem byrja ó úr ræðustól til að segja hvað þetta er asnalegt. Mér finnst það bara barnalegt, þið verðið að afsaka. Og koma svo með einhverjar afsakanir um að það sé búið að flytja þetta frumvarp fimm sinnum. Við erum líka búin að flytja frumvarp um afglæpavæðingu fimm sinnum. Ekki hefur það verið afgreitt. Þannig að þegar það er greinilegt að það er ágreiningur og það er ekki búið að hlusta á allt og það er ekki búið að athuga hvort það standist stjórnarskrá, þá er þingið ekki búið að vinna vinnuna sína. Þess vegna á þetta mál ekki að koma hingað inn og á svo sannarlega ekki að vera sett í forgang fram yfir það hvernig við förum með aldraða og öryrkja.

Ég ætla bara að minna hv. þingmenn á það sem hér eru að fara að greiða atkvæði um þessa dagskrártillögu að þið eruð að greiða atkvæði um það hvort þið setjið einhverja pólitíska (Forseti hringir.) óskhyggju framar öryrkjum og öldruðum. Þegar þið segið nei eruð þið að kjósa gegn öldruðum og öryrkjum. Það er það einfalt.