153. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2022.

dagskrártillaga.

[13:33]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við erum sannarlega ekki að ræða málið hér. Við erum að ræða það hvort það sé tími til að ræða það. Það er nákvæmlega það sem við erum að ræða. Þegar ég nefni það að það hafi borist 17 umsagnir þá er ég að benda á að það hefur ekki verið brugðist við þeim umsögnum með neinum hætti.

Hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir nefnir breytingartillögu sem kemur fram af hálfu meiri hlutans í nefndaráliti hans. Það er mjög gott að hún skuli nefna hana vegna þess að sú breytingartillaga í fyrsta lagi var ekkert rædd í nefndinni, hefur ekki fengið neina umfjöllun, það hafa engar umsagnir borist um hana. Hún er það sem kallast á góðri íslensku skítamix til að reyna að bjarga einhverjum litlum hópi barna fyrir horn, til að hjálpa meiri hlutanum að sofna á kvöldin yfir þessu frumvarpi. Líkt og hefur verið bent á hérna þá þarf ekki að breyta neinum lögum til þess að bjarga þessum börnum í fyrsta lagi.

Í öðru lagi er ekki verið að gera neinar breytingar í frumvarpinu til að bregðast við þeim ábendingum sem hafa komið fram um það t.d. að ákvæði frumvarpsins brjóti gegn réttindum barna. Þær hafa ekkert komið frá einhverjum No Borders, þær hafa komið frá UNICEF og frá Barnaheillum og frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna. (Forseti hringir.) Meiri hlutinn, með því að setja þetta mál á undan öðrum málum (Forseti hringir.) á dagskrá, er hann búinn að taka ákvörðun um að láta réttindi öryrkja (Forseti hringir.) sitja á hakanum fyrir jólin. Þau vilja fá þetta strax. Við erum öll sammála um þetta. Þetta er algerlega galið. (Forseti hringir.) Fyrir hvað?