153. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2022.

dagskrártillaga.

[13:37]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Forseti. Ég lagði þessa tillögu fram og styð hana vegna þess að það er óábyrgt af forseta og stjórnarliðum að tefla í tvísýnu fjölda mála sem eru viðkvæm í tíma og liggja fyrir þinginu núna. Og til hvers? Ekki til neins annars en að þjóna þráhyggju stjórnarliða að draga úr réttindum útlendinga. Það er jólagjöfin í ár. Takk fyrir. En fyrst við erum hér í salnum, forseti, og ég sé hér hæstv. félagsmálaráðherra, þá vil ég minna forseta á að koma því til félagsmálaráðherra, þannig að hann eigi nú örugglega heimangengt þegar og ef þessi umræða fer af stað, að nærveru hans hefur verið óskað, eins og hann komst reyndar undan að verða við á fyrri stigum í málinu. En nú er nærveru hans óskað vegna þess að ráðuneytið tróð sér inn í feril málsins hjá allsherjar- og menntamálanefnd. Og þar með sé ég ekki hvernig ráðherrann getur með nokkru móti komið sér undan því að mæta í þingsal og segja okkur hvað það var (Forseti hringir.) sem ráðuneyti félagsmála og vinnumarkaðar (Forseti hringir.) bað allsherjar- og menntamálanefnd um að breyta í frumvarpinu og hvort hann sé sáttur við þá útfærslu sem fyrir liggur. (Forseti hringir.) Nærveru ráðherrans er krafist. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)