153. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2022.

dagskrártillaga.

[13:40]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að fagna þessari dagskrártillögu af því að ég tel að það sé hreinna að koma með dagskrártillögu og segja að maður vilji ekki fá málin á dagskrá en að lengja fjárlagaumræðuna hér um einn og hálfan til tvo daga. (Gripið fram í.) Það eru dagar sem við notum þá ekki í að ræða þetta mikilvæga mál um útlendinga sem hér er verið að tala um að við höfum ekki tíma í. Ég verð bara að benda á það að á dagskrá þingsins eru, held ég, mun færri mál núna fyrir þinghlé á jólum en oft áður. Ég hef fulla trú á því að ef við sameinumst um það þá náum við góðri umræðu um öll þessi mál sem fyrir okkur liggja. Við munum klára málin fyrir öryrkjana og önnur þau mikilvægu mál sem við þurfum að klára hér. Við höfum nægan tíma til þess og því segi ég nei við þessari dagskrártillögu.