153. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2022.

Störf þingsins.

[14:03]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Að gefnu tilefni. Við Íslendingar erum stolt af því að vera lýðræðisþjóð. Á fjögurra ára fresti kjósum við fulltrúa til að stjórna landinu og setja okkur lög. Margir spyrja sig hins vegar hvort fólk sem býr við fulltrúalýðræði geti í raun og veru ráðið einhverju um þær ákvarðanir sem teknar eru í umboði þess. Er í raun eitthvað hlustað á skoðanir fólks? Í þingsköpum Alþingis segir, með leyfi forseta:

„Nefnd getur við umfjöllun máls óskað skriflegra umsagna um það frá aðilum utan þings. Á sama hátt geta þeir er mál varðar komið skriflegum athugasemdum sínum að eigin frumkvæði á framfæri við nefnd. Sömuleiðis getur nefnd samþykkt að taka við gestum og hlýða á mál þeirra.“

Með þessu ákvæði í þingsköpum er komið til móts við þá hugmynd að mikilvægt sé að fá álit einstaklinga, stofnana, félagasamtaka og fyrirtækja á þeim lögum sem verið er að setja eða breyta hverju sinni. Allt hljómar þetta vel og utan frá lítur þetta út eins og virkilega sé hlustað á álit þeirra aðila sem hafa aðkomu að viðkomandi máli. Raunveruleikinn er hins vegar sá að hlustað er á fæstar athugasemdir þeirra sem berast nema þeir bendi á þeim mun alvarlegri ágalla á málinu. Það er þó þannig að orðið er við öllum athugasemdum sem koma frá því ráðuneyti sem samdi frumvarpið en oft uppgötvar það ágalla eða hluti sem betur mættu fara eftir að frumvarpinu er skilað inn til þingsins. Sem nýr þingmaður sit ég oft hissa á nefndarfundum þar sem lögmætar og góðar ábendingar komu fram hjá umsagnaraðila en fulltrúar stjórnarmeirihlutans velja að hunsa þær ábendingar, greinilega af ótta við að styggja viðkomandi ráðherra eða setja ríkisstjórnarsamstarfið í hættu.