153. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2022.

Störf þingsins.

[14:14]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Í Fréttablaðinu í morgun voru sláandi fréttir þess efnis að þorskstofninn okkar væri í hættu. Í Guardian í gær var fjallað um að lundastofninn gæti horfið síðar á öldinni. Þessar sorglegu sögur og staðreyndir um afleiðingar loftslagsvandans sem draga fram sömu myndina og vandinn hverfur ekki þó að við séum annars upptekin núna í dag við að glíma við verðbólgu, fjárlagahalla, dýrtíð og önnur vandamál. Afleiðingarnar eru þegar farnir að ógna lífsskilyrðum og þær verða bara meiri eftir því sem tíminn líður. Síðustu ár hafa verið þau heitustu frá upphafi mælinga. Skógareldar og þurrkar eru nú tíðari og alvarlegri en nokkurn tíma fyrr, veðuröfgar færast í aukana og fellibyljum og flóðum fjölgar með tilheyrandi afleiðingum. Þær draga tugþúsundir til dauða hvert ár og valda ólýsanlegu skemmdum. Milljónir neyðast til að flýja eigin heimkynni til að bjarga sér og sínum. Eftir um 30 ár gæti þessi fjöldi náð meira en 1 milljarði — 1 milljarði. Stjórnvöld á Íslandi eru ekki tilbúin að lýsa yfir neyðarástandi. En hvaða orð geta annars lýst veruleika þessa fólks? Það þarf ekki bara að rýna í skýrslu til að vita hver vandinn er, það nægir líka að opna fréttavefinn til að sjá veðurhamfarir nú á áður óþekktum mælikvarða. Verði ekki gripið til aðgerða munu grundvallarbreytingar eiga sér stað á jörðinni, loftslagi hennar og vistkerfum. Þær hlífa engum, spyrja hvorki kóng né prest, þó að þær bitni mismikið á íbúum jarðarinnar. Þetta er ekki eingöngu prófraun á skynsemi og samvinnu. Vandinn kallar líka á samtal um siðferðisgildi gagnvart jörðinni sjálfri og mannslífunum öllum og ekki síst gagnvart framtíðarkynslóðum. Svarið er nokkuð einfalt í mínum huga: Okkur ber skylda til að takast á við þessa stærstu ógn okkar tíma af fullum krafti. Við getum öll gert betur og við verðum að gera það. Það er nákvæmlega kjarni málsins.