153. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[16:16]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Mig langaði, áður en ég held áfram að fjalla um hin ýmsu málefnasvið í fjárlagafrumvarpinu, að taka eitt fram varðandi það sem var verið að ræða hér á undan um húsnæðismál og annað. Eitt af því sem var gert eftir hrun, sem var af hinu góða, var að búinn var til upplýsingagrunnur um það hvernig heimilin í landinu stóðu. Þennan grunn gat ríkisstjórnin síðan notað til að taka ákvarðanir, eins og t.d. að 110% leiðin hjálpi þessu fólki, þessi leið hjálpar þessu fólki. Það var alla vega verið að taka upplýstar ákvarðanir. Jú, þau höfðu gögn til þess að nýta. Hvort hægt hafi verið að hjálpa öllum var svo annað mál og hverjum var hjálpað; það voru pólitískar ákvarðanir. En það er líka athyglisvert að út úr þessum gögnum kom að ef þú fórst 20% leiðina, sem hæstv. forsætisráðherra á þeim tíma ákvað að fara, þá var þeim ríkustu bara hjálpað. Alla vega var verið að reyna að nýta gögn. Í dag þá reynum við að segja hér að eitthvað sé gott og að eitthvað sé slæmt en við höfum ekki einu sinni gögn til að vinna með. Ég nefndi það í fyrri ræðu að við þurfum að geta tekið upplýstar ákvarðanir. Það er svo allt annað hvort við hlustum á upplýsingarnar. Það er hægt að rífast um það hvort nokkur hafi gert eitthvað af því á þeim tíma, en alla vega voru til gögn. Það er meira en við höfum í dag.

Ég hef verið að fara í gegnum fjárlagafrumvarpið og reynt að fara í gegnum það á dálítið skipulegan hátt. Þeir sem horfðu á næturútsendingar hér fyrir nokkrum dögum, í fyrradag held ég, fengu að kynnast málefnasviðum 1–3. Ég ætla bara að halda áfram með málefnasvið 4. Vonandi kemst ég í gegnum það í þessari ræðu. Fyrir þá sem ekki þekkja öll númerin á málefnasviðunum, þetta er kannski krossapróf fyrir þingmenn í lok dags, þá snýst málefnasvið 4 um utanríkismál. Ég sit einmitt sem áheyrnarfulltrúi í utanríkismálanefnd þannig að þetta er hlutur sem skiptir mig svolitlu máli og ég reyni að fylgjast með þessu innan þingsins. Fjögur undirsvið eru undir þessu og mig langar að tala aðeins um þau.

Fyrsta undirsviðið er utanríkisþjónustan sjálf og stjórnsýslan, sem þýðir þá ráðuneytið, en þarna eru líka sendiráðin, sendiskrifstofurnar okkar og borgaraþjónustan. Þetta er hluti af ríkinu og hluti af þjónustu sem við gleymum mjög oft hversu mikilvæg er. Við munum það ekki fyrr en eitthvað gerist. Gott dæmi um það er t.d. það frábæra starf sem borgaraþjónustan vann þegar heimsfaraldurinn skall á, vegna þess að þá voru Íslendingar og fjölskyldur þeirra á víð og dreif um heiminn. Ég var t.d. inni í miðri Afríku. Það sem þau gerðu var að skipta með sér verkum. Þau notuðu sendiherrana úti um allan heim og starfsfólkið og létu það skiptast á til að veita 24 klukkutíma þjónustu, sjö daga vikunnar, við okkur Íslendinga sem vorum erlendis. Það er líka þannig að þegar við erum á ferðalagi erlendis geta alls konar hlutir komið fyrir, við getum verið rænd, slasast og veikst. Borgaraþjónustan hjálpar með þetta allt eftir bestu getu. Að sjálfsögðu geta þau ekki gert allt en þetta er samt mjög mikilvæg þjónusta og það þarf að auka hana. Hvers vegna? Jú, vegna þess t.d. að stór hluti fólks, ótrúlega margir, býr erlendis hluta af ári. Gott dæmi um það eru t.d. eldri borgarar sem velja að vera yfir vetrarmánuðina á Spáni eða Kanarí. Það er athyglisvert að á Spáni erum við t.d. ekki með sendiráð eða sendiskrifstofur, þrátt fyrir að þarna séu jafnvel þúsundir einstaklinga frá Íslandi á veturna. Það er eitthvað sem kemur svolítið á óvart. Við verðum að muna að við búum í heimi sem er orðinn miklu stærri.

Í fjárlagafrumvarpinu er aðeins sett inn nýtt fjármagn af því að, eins og hefur komið fram, við erum að fara að gegna formennsku í Evrópuráðinu og norrænu ráðherranefndinni. Þarna er aftur gott að Ísland geti komið sínum markmiðum í forgang innan þessara aðila. Hins vegar, þegar horft er á allt undirsviðið, þá er þetta ansi stór niðurskurður sem þarna er; 196 milljónir sem lenda að mestu á sendiráðum og sendiskrifstofum. Mörg þessara sendiráða eru ekkert stór. Sem dæmi erum við með sendiráð í fjölmörgum löndum í kringum okkur og þetta eru oft ekki nema tveir, þrír eða fjórir starfsmenn að sinna alls konar hlutverkum, t.d. að gefa út vegabréf, gera Íslendingum mögulegt að kjósa utan kjörfundar o.fl. Allt eru þetta hlutir sem ég á erfitt með að sjá að við eigum að skera þvert niður um 190 og eitthvað milljónir. Hvernig kemur það niður á okkur Íslendingum sem eigum eftir að fara til útlanda, eigum vini og ættingja sem eru erlendis? Ég held að þetta komi nefnilega mest niður á þeim Íslendingum sem eru einmitt búsettir erlendis eða ferðast á erlendri grund. Undanfarin ár hef ég einmitt verið að ræða mikið við Íslendinga erlendis, hafandi verið í þeim hópi um árabil, og ég fékk fullt af kvörtunum um það hvernig bæta megi þjónustuna á auðveldan hátt. Gott dæmi eru rafræn skilríki. Við komumst ekki inn á neina þjónustu íslenska ríkisins í dag ef við erum ekki með rafræn skilríki. Rafræn skilríki eru föst og tengd við það símakort sem þú ert með í höndunum. Hvað þýðir það? Jú, segjum að þú sért búsettur á Spáni og símanum þínum er stolið. Allt í einu kemstu ekki lengur inn á rafrænum skilríkjum, kemst ekki inn á neitt og þú þarft að fljúga til Íslands til þess eins að fara í eitthvert símafyrirtæki, fá ný skilríki og mæta þar með vegabréfið þitt og sýna: Já, ég er Gísli Rafn Ólafsson. Ég get ekki einu sinni notað netið sem við höfum á heiðurskonsúlum víða um heim til að gera þetta. Vonandi stendur til að breyta því.

Þegar kemur að þessari þjónustu við Íslendinga erlendis þá þurfum við að fara að átta okkur á því að við eigum fólk sem býr úti um allt. Ég hef tekið dæmi, t.d. ef foreldri flytur til útlanda sem er einstætt og á að fá greitt meðlag frá Íslendingi sem býr á Íslandi og þetta eru íslensk börn og íslenskur maki, þá allt í einu erum við búin að ákveða það að viðkomandi eigi ekki að fá meðlagið greitt inn á reikninginn sinn af því að viðkomandi býr erlendis. Nei, við látum viðkomandi fara í dómsmál úti í því landi og þetta er allt svona. Tölvan segir nei. Þeir sem unnið hafa mikið með réttindi öryrkja og ellilífeyrisþega kannast við þetta. Ég held nefnilega að Íslendingar búsettir erlendis sé góður hópur sem líka er tilbúinn til þess að berjast fyrir bættri þjónustu.

Ég sé, hæstv. forseti, að ég er búinn með tímann minn en ég náði ekki einu sinni að klára þetta málefnasvið. Því má vinsamlegast bæta mér á mælendaskrá svo ég geti klárað þá umræðu.