153. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[16:39]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Já, það er svo sannarlega hægt að deila um það hvaða áhrif aðgerðirnar höfðu. En það sem ég var að reyna að benda á var að stjórnvöld höfðu þó alla vega gögn til að vinna út frá. Ég held að flestir hafi áttað sig á því að það var mjög margt sem var bara hreinlega ekki hægt að bjarga, alla vega ekki meðan við vorum og erum enn þá með blessuðu verðbólguna sem á þeim tíma fór nú mun hærra upp en við erum að sjá akkúrat núna og eyðilagði allar þær eignir sem fólk hafði unnið sér inn. Það mikilvæga hérna er að við þurfum á hverjum tíma að geta áttað okkur á því hver neyðin er. Stundum stöndum við hér í ræðustóli Alþingis og kvörtum yfir neyðinni. Þá koma hinir stjórnmálaflokkarnir og segja: Æ, þetta er bara bölvuð vitleysa í þér, hv. þm. Gísli Rafn Ólafsson, það er engin fátækt á Íslandi. Meðaltölin sýna að það er engin fátækt hér. Ef við hefðum gögnin alltaf við höndina þá gætu þau ekki lengur svarað okkur svona.