Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 46. fundur,  10. des. 2022.

almannatryggingar.

568. mál
[12:02]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Forseti. Það er ánægjulegt að við erum hér samankomin til að ræða um mál sem allir eru sammála um að sé mikilvægt, eingreiðsla til öryrkja og endurhæfingarlífeyrisþega. Það er samt ótrúlegt að við virðumst þurfa að koma saman fyrir hver jól til að samþykkja svona lagað í stað þess að þetta sé einfaldlega byggt inn í kerfið. Það er reyndar þannig með mjög marga hluti, virðist vera, í okkar lögum og kerfum að það er endalaust verið að endurnýja einhver ákvæði. Það þorir enginn að taka af skarið og setja þau ákvæði inn sem fasta hluti. Það væri athyglisvert að taka saman þann tíma sem fer í að endurnýja bráðabirgðaákvæði á hverju ári því að það þarf að leggja fram tillögu hér, síðan þarf hún að fara í nefnd. Það þarf jafnvel að fá umsagnir og gestakomur, allt til að breyta einni dagsetningu og segja: Við erum bara að halda áfram með það sama og var. Við hljótum að geta unnið aðeins skilvirkara en það.

Mig langaði líka að ræða þá tillögu sem hv. þm. Inga Sæland hefur lagt fram um að bæta tölulið við frumvarpið sem við erum að ræða hér og veita ellilífeyrisþegum sem lökust hafa kjörin einnig eingreiðslu, sams konar og við erum að ræða að öryrkjar og endurhæfingarlífeyrisþegar fái. Það hefur verið bent á það að kerfið okkar er dálítið brothætt þarna, í kringum akkúrat þennan aldur, þegar þú ferð frá því að vera öryrki að 67 ára aldri yfir í að verða ellilífeyrisþegi 67 ára. Viðkomandi aðilar geta hrapað í kjörum, lífsviðurværi þeirra hrapar við það eitt að eiga afmæli. Þá held ég að það fari að gerast eins og gerist hjá sumum einstaklingum sem eru að reyna að fela það hvenær þeir verða eldri, eru bara 43 ára átta ár í röð eða 29 plús eins og tíðkast hjá mörgum sem eru orðnir þrítugir. Því miður er ekki hægt að nýta þetta í kerfinu okkar vegna þess að um leið og tölvukerfið sér að þú ert orðinn 67 ára þá hættir það að veita þér ákveðin réttindi og þú ert allt í einu orðin allt önnur manneskja og ert orðinn ellilífeyrisþegi.

Þetta gerist náttúrlega í ákveðnum jaðartilvikum en það eru nákvæmlega þessi jaðartilvik sem við þurfum að passa að séu ekki í okkar kerfum. Tillaga hv. þingmanns gengur út á það að laga nákvæmlega þetta fyrir tekjulægstu ellilífeyrisþega. Þá spyr maður sig: Er það ekki bara sjálfsagt? Er þetta ekki akkúrat það sem við eigum að gera? Og meira að segja hv. þingmenn úr stjórnarliðinu hafa sagt: Já, það er ekki gott að þetta sé svona og við þurfum að gera eitthvað fyrir þennan hóp en við gerum það þegar við erum búin að heildarendurskoða kerfið. Hv. þm. Jóhann Páll Jóhannsson átti setningu morgunsins með því að segja að það borðar enginn heildarendurskoðun. Það lifir enginn á heildarendurskoðun. Hún verður ekki í askana látin og það er ekki hægt að fela sig á bak við eitthvað svona. Hér erum við að tala um það hvort við ætlum að hjálpa eldra fólki að geta lifað almennilega af hátíðarnar fram undan. Þá er það bara þannig að annaðhvort eru hv. þingmenn með hjarta sem er enn að slá og sýna að mannúð og samhugur er enn þá til hér í þessum háa sal eða maður fer að hugsa hvort sum hjörtun séu hreinlega orðin steinrunnin og menn hugsi um það eitt að styggja ekki ríkisstjórnarsamstarfið, hugsi um það eitt að allar tillögur sem koma frá stjórnarandstöðunni hljóti að vera slæmar. Hvort skiptir meira máli, frú forseti? Hvort skiptir meira máli? Ég minni hv. þingmenn á að samkvæmt stjórnarskránni skulu þeir greiða atkvæði samkvæmt sannfæringu sinni. Ég vona að sú sannfæring sé að við förum ekki illa með þá sem minnst mega sín, að við förum ekki illa með eldra fólkið sem byggði upp það velferðarkerfi og hið ansi góða líf sem við lifum hér á Íslandi samanborið við mörg önnur lönd. Þau eiga það skilið og það þarf ekki mikið til að sannfæra mig um að það skipti máli.

Frú forseti. Það er von mín að bæði þetta frumvarp og þessi breytingartillaga opni hjörtu þeirra þingmanna sem virðast ekki vera að hugsa með hjartanu. Ég veit þó alla vega hvar hugur flestra er sem standa hér í dag í þessum litla sal, því hann er svo sannarlega hjá fólkinu.