Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 46. fundur,  10. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[15:42]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Ég veit að margir sem hafa verið að fylgjast með ræðum mínum í tengslum við þetta frumvarp hafa eflaust verið spenntir yfir því að ég færi yfir hvert og eitt málefnasvið fjárlaga. Ég var kominn upp í málefnasvið 4 en þar sem mér sýnist nú að 2. umr. um fjárlögin sé farin að styttast í annan endann þá er ég að hugsa um að hoppa yfir næstu 30 og eitthvað málefnasvið og fara beint í eitt málefnasvið sem mér er kært, sem er alþjóðleg þróunarsamvinna. Ég ræddi það fyrr í vikunni, undir fjáraukalögum, að það væri mjög slæmt að sjá að verið sé að draga saman í raun það sem við setjum í þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoð á þessu ári, í kringum 1 milljarð, vegna þess að við erum að taka peninga úr þessum mannúðar- og þróunarsamvinnupotti, ef svo má segja, og nota til aðstoðar vegna stríðsins í Úkraínu. Þó svo að ég sé algerlega sammála því að við eigum að styðja við Úkraínu þá hafði ég rætt það við hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra fyrr í haust hvort þetta tvennt myndi hafa áhrif á hvort annað og hann taldi að svo yrði ekki. En, eins og ég segi, er þetta um 1 milljarður á fjáraukalögum. Ég hef lagt fram breytingartillögu við fjáraukalögin hvað þetta snertir.

Þegar lesið er um breytingartillögur við fjárlögin fyrir næsta ár þá stendur á bls. 46 í nefndaráliti meiri hlutans, á næstsíðustu síðunni, með leyfi forseta:

„Lagt er til að veita 1.500 m.kr. til aðstoðar Úkraínu með áherslu á mannúðar- og efnahagsaðstoð. Aðstoðin er til viðbótar framlögum Íslands til annarrar alþjóðlegrar þróunarsamvinnu eins og þau eru lögð fram í frumvarpinu. Rétt er að vekja athygli á því að mannúðar- og efnahagsstuðningur Íslands við Úkraínu hefur hingað til verið fjármagnaður af þróunarsamvinnufé á kostnað framlaga til annarra brýnna alþjóðlegra verkefna. Gert er ráð fyrir að framlaginu verði að mestu beint í gegnum í stofnanir Sameinuðu þjóðanna, Alþjóðabankann og annað fjölþjóðasamstarf í samræmi við óskir og þarfir úkraínskra stjórnvalda.“

Það er gert ráð fyrir því líka að það sé verið að tryggja að við höldum okkur í 0,35% af þjóðartekjum í framlögunum. Þetta leiðir í rauninni til þess að aftur á næsta ári ætlum við að lækka framlög til mannúðar- og þróunarverkefna annars staðar vegna þess að við erum að styrkja Úkraínu. Ég tel einfaldlega að verkefnið í Úkraínu sé það sérstakt og ákveðið að það þurfi bara að koma sérstakar heimildir þannig að þetta komi ekki niður á þeim frábæra stuðningi sem við veitum öðrum málum. Má þar nefna að hungursneyð er að aukast í Afríku og margt annað er hreinlega á niðurleið eftir Covid og svo eftir stríðið og hækkandi verðbólgu víða um heim og þróunarlöndin eru að ganga í gegnum mjög erfiða tíma. Það er mikilvægt að við séum ekki að snúa baki við þeim á sama tíma og við erum auðvitað að styðja við frændur okkar í austri.

Ég hefði eflaust getað fjallað heilmikið um önnur málefnasvið. Mig langar bara að nefna í framhjáhlaupi að t.d. er flatur niðurskurður á því málefnasviði sem snýr að nýsköpun. Þetta er slæmt vegna þess að á því málefnasviði er mikið um að hlutir séu settir beint í sjóði, hvort sem það er Tækniþróunarsjóður eða aðrir, líka notað til þess að endurgreiða kostnað við þróun og rannsóknir. Flatur niðurskurður kemur aðallega niður á stuðningi við stuðningsumhverfið. Ég hefði viljað að við myndum hugsa það aðeins betur en ég vona að það sé hægt að finna einhverjar leiðir í því og mun ég því reyna að ræða við hæstv. háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um það. En fleira var það ekki sem ég ætlaði að nefna í þessu sambandi.