Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2022.

aðgengi að sálfræðiþjónustu.

[15:40]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Þorgerði K. Gunnarsdóttur fyrir hennar spurningar hér. Af því að hv. þingmaður spyr um hvort það megi ekki fara að rjúfa þetta tregðulögmál og opna faðminn þá ég vil meina að við höfum nú opnað faðminn, sérstaklega þegar kemur að geðheilbrigðismálum, og það gildir um þessa ríkisstjórn. Hv. þingmaður kemur hér inn á nokkra þætti og byrjar á því sem snýr að sálfræðingum og samningum við sálfræðinga. Það er blessunarlega búið að að ná saman þar, Sjúkratryggingar náðu að setja fram samning, svona opinn samning getum við sagt, en það var eftir mikið samráð við starfandi sálfræðinga. Þar er kveðið á um að semja um kaup á sálfræðiþjónustu aðallega fyrir ungmenni á aldrinum 18–30 ára gegn tilvísun frá heilsugæslustöð þannig að við erum að reyna að láta kerfið vinna saman þarna. Það er mjög mikilvægt að taka utan um sérstaklega vaxandi þunglyndi og kvíðaraskanir ýmiss konar og það erum við að gera. Síðan erum við að fara að setja í samráð mjög ítarlega aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum og taka hana inn í þingið. Hún hvílir á þeirri stefnu sem þingið samþykkti í vor, þannig að við erum á fjölmörgum sviðum. Af því að hv. þingmaður kemur inn á hlutverk heilsugæslunnar í þessum efnum þá er hún jafnframt mjög mikilvæg í þessu. Þannig að ég held að við fáum að sjá næstu stóru skref í þessari geðheilbrigðisáætlun sem fer mjög fljótlega í samráð.