Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2022.

hlutafélög o.fl.

227. mál
[21:34]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Já, ég vil kannski byrja á þessu fyrra, með skil og að ýta á hnappinn og það allt saman. Ég skil það þannig að þar sé verið að tala um þessi örfélög, félög sem eru það lítil að í raun ertu bara að fylla út ákveðin grunnatriði á vefnum og getur síðan bara sagt: Sendu upplýsingarnar mínar inn. Ársreikningur er í raun bara ákveðið staðlað format, bara til að sýna rekstraryfirlitið og efnahagsyfirlitið, þarna er verið að gefa möguleika á því að gera það á tiltölulega einfaldan máta. Það góða væri þarna að við gætum strax farið að lesa gögnin um þessi örfélög. Þau fáum við ekki á pdf-formi heldur kemur hver og einn dálkur yfir af vefnum.

Það sem ég er að tala um er að gera þetta líka fyrir stærri fyrirtæki, þ.e. að gögnin komi yfir, rekstraryfirlit og efnahagsyfirlit, á þessu stafræna sniðmáti og þess vegna gætum við farið að vinna þessar upplýsingar, keyra þessar upplýsingar út. Hversu mörg fyrirtæki í ferðamannaiðnaði voru rekin með tapi á síðasta ári? Það er bara dæmi um upplýsingar sem væri hægt að fá ef gögnin væru öll á stafrænu formi. Við getum bara ýtt á takka og fengið það út. Hversu mörg fyrirtæki í sjávarútvegi greiddu út arð á síðasta ári? Hversu hár var sá arður? Allt eru þetta spurningar sem við gætum verið að spyrja kerfið daginn eftir að frestur er liðinn til að skila ársreikningi. Í dag getur tekið marga mánuði að svara þessu.