Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2022.

hlutafélög o.fl.

227. mál
[21:38]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Já, það er þessi ofurhnappur á vef Skattsins, það er spurning hvað gerist þegar ýtt er á hnappinn. Það er nú reyndar þannig með mjög mörg fyrirtæki og mjög mikið af þeim upplýsingum sem þau eru að skila til Skattsins í dag að það er ekki endilega gert á pdf-formi eða með því að fylla út eitthvað á vefsíðu Skattsins heldur eru bókhaldskerfin orðin tengd við ríkisskattstjóra. Það virkar hreinlega þannig, ef við tökum t.d. virðisaukaskattsskýrslu eða skattframtöl í lok árs, að í flestum bókhaldskerfum keyrir þú það út og færð að sjá hvað kemur upp en síðan er það bara: Senda til Skattsins. Það er ekki sent sem pdf heldur er það sent sem eitthvert ákveðið gagnasnið. Ég tel að hægt sé að gera nákvæmlega það sama með rekstraryfirlitið og efnahagsyfirlitið. Svo eru náttúrlega í ársreikningunum ákveðnar yfirlýsingar. Þú ert með yfirlýsingar stjórnar um að hér séu réttir reikningar. Þú ert með yfirlýsingu frá endurskoðendum um að viðkomandi hafi endurskoðað reikninga. Þetta er allt hægt að gera með rafrænum skilríkjum í dag og hægt að gera allt þetta ferli rafrænt. Í dag er það nefnilega enn þannig að þú þarft að prenta út eintak, þú þarft að skrifa undir það með penna og síðan þarft þú að koma með eintakið eða senda það í pósti til ríkisskattstjóra. Það viljum við náttúrlega losna við sem allra fyrst.