Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2022.

hlutafélög o.fl.

227. mál
[21:43]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Já, töfrahnappurinn — ég held að það sé einfaldlega verið að gera þarna „hnapp“ úr því að segja „senda gögn til Skattsins“, en ég verð að viðurkenna að ég hef ekki prófað að fara inn á þessa vefsíðu sjálfur. En það er rétt, sem hv. þingmaður benti á, að það er mikið gagnsæi í því að fá aðgang að ársreikningum, að ársreikningum sé yfir höfuð skilað og líka í því að við sjáum hverjir raunverulegir eigendur eru. Allt eru þetta hlutir sem hafa bæst við á undanförnu ári eða tveimur sem skipta rosalega miklu máli til þess að við getum haft virkt eftirlit og gagnsæi í því hverjir eiga hlutafélög, hverjir eru að græða á þeim og hversu mikið. Þetta er bara enn eitt skrefið í því sambandi. Það er hins vegar vert að geta þess að það hefur komið smábakslag í þetta með raunverulegu eigendurna. Evrópudómstóllinn var að dæma að þau lög sem eru í Evrópu um þau mál gengju gegn persónuvernd. Ég veit að það var á dagskrá ríkisstjórnarinnar í síðustu viku að taka ákvörðun um það hvaða áhrif sá dómur hefði hér á landi. Það gæti allt eins verið að við misstum upplýsingar um raunverulega eigendur og þyrftum þá að fara aftur hér inn á þing til að gera breytingar á lögum um raunverulega eigendur til þess að takast á við að það sé ekki brot á persónuvernd.