Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2022.

hlutafélög o.fl.

227. mál
[21:47]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir seinna andsvarið. Þetta er náttúrlega ákveðin grundvallarkrafa. Við erum að setja okkur reglur og lög um það hvað sé t.d. ráðandi hlutur í fyrirtæki. Við erum með reglur í tengslum við sjávarútveginn, hversu mikið einstakur aðili má eiga. Við erum líka með reglur í sjávarútveginum um að erlendir aðilar megi ekki eiga hlut. Við erum meira að segja með reglur um að erlendir aðilar megi ekki eiga land og ýmislegt annað. Við erum með alls konar reglur þar sem við erum búin að setja okkur — út frá einhverjum viðmiðum, siðferðislegum viðmiðum, stundum pólitískum viðmiðum — ákveðnar reglur. Það er náttúrlega löngu þekkt leið í viðskiptaheiminum að þú býrð alltaf til hlutafélag utan um allar fjárfestingar og ert jafnvel með sérhlutafélag fyrir hverja einstaka stóra fjárfestingu sem þú ferð út í. Ef við getum bara vitað að aðili heitir A, B, C, 1, 2, 3 ehf., og við vitum ekkert hver stendur á bak við það, gæti það í tilfelli sjávarútvegsins alltaf verið sami aðilinn. Þetta gæti líka verið í eigu erlends hlutafélags — ja, nú eru menn rosalega hræddir við að Kínverjar kaupi landið. Þetta gætu verið þeir. Við vitum ekkert ef við höfum þessa leynd á því hverjir raunverulegir eigendur fyrirtækja eru. Þess vegna er mjög mikilvægt að við hér á Alþingi höldum því opnu að geta tryggt siðferðisleg viðmið, pólitísk viðmið og jafnvel þjóðaröryggisviðmið.