Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2022.

hlutafélög o.fl.

227. mál
[23:32]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir áhugaverða ræðu. Mjög áhugavert að heyra hv. þingmann tala um hvernig 1. gr. væri í raun takmörkun á eignarrétti. Mér finnst það skjóta svolítið skökku við, þar sem við búum á tímum þar sem hlutirnir gerast hraðar og hraðar þarna erum við t.d. að tala um fyrirtæki sem eru skráð á skipulegan markað. Þar er hægt að skipta um eigendur á nokkrum sekúndubrotunum. Þetta var kannski aðeins öðruvísi í gamla daga þegar menn þurftu að hringja í miðlarann sinn, miðlarinn stóð á einhverju miðlaragólfi og svo gerðust einhverjar breytingar eftir því hvernig pappírarnir flutu á milli. Í dag getum við í rauninni hvenær sem er séð hverjir eiga hluti, þ.e. við getum keyrt út hverjir liggja með hvað. Tökum dæmi: Ef þessi frestur er heil vika þá gætum við hv. þingmaður verið eigendur í einhverju hlutafélagi þessa vikuna en ekki í næstu viku. Við erum samt skráðir til að taka þátt í fundi. Allt í einu erum við hv. þingmaður, sem seldum aftur verð- eða hlutabréfin okkar nokkrum dögum eða jafnvel klukkutímum seinna, orðnir gjaldgengir inn á fund hjá hlutafélagi sem við eigum ekkert í. Er þetta ekki allt of takmarkandi og í rauninni bara úrelt miðað við hversu hraður þessi heimur er í raun?