Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

almannatryggingar.

568. mál
[15:56]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir skelegga ræðu. Nú er hv. þingmaður tiltölulega nýr í þessu starfi eins og ég, eða alla vega er hann að koma inn aftur, mig minnir að hv. þingmaður hafi setið hér aðeins fyrr. Það virðist vera tvennt sem maður tekur eftir þegar maður er nýr hérna. Í fyrsta lagi að ef við leggjum til einhverjar breytingar á einhverju, við hv. þingmenn, er alltaf einhver heildarendurskoðun í gangi. Það virðist ekki skipta neinu máli hvaða kerfi við erum að gagnrýna eða benda á, það er alltaf í endurskoðun. Það virðist vera góð afsökun fyrir því að gera engar breytingar. Eins og hv. þingmaður sagði verður heildarendurskoðunin ekki í askana látin og við getum ekki borðað hana. Því er allt í lagi að eldra fólkið þurfi að bíða af því að það er bara verið að heildarendurskoða þetta. Kannski deyr nógu margt eldra fólk meðan við erum að heildarendurskoða þetta og við þurfum ekki að borga. Það er kannski það sem þeir eru að hugsa. Að sama skapi erum við að rekast á það, að ef við í stjórnarandstöðunni komum með einhverja hugmynd, jafnvel þótt hún sé alveg rosalega góð, þá má alls ekki samþykkja hana. Gott dæmi um þetta er næsta mál sem við erum að fara að tala um, hækkun frítekjumarks. Þetta var sko meiri vitleysan og þurfti að bíða heildarendurskoðunar þegar við ræddum þetta í fyrra, en allt í einu núna kom sama tillaga frá ríkisstjórnarflokkunum og þá er hún allt í lagi. Hvað finnst hv. þingmanni um svona vinnubrögð?