Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

almannatryggingar.

568. mál
[16:21]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir eldræðu sína hér. Mig langar að byrja á því að tala um eitt sem hv. þingmaður nefndi nokkrum sinnum í ræðu sinni og það er þetta framfærsluviðmið, hversu mikið er reiknað með að þú þurfi til að lifa af mánuðinn. Einhvern veginn virðist vera eins og það sé í rauninni ekki til neitt eitt viðmið. Það er ákveðið viðmið sem sveitarfélögin nota til að ákveða hvort þú uppfyllir skilyrði um fjárhagsaðstoð og svo er viðmið um það ef þú ætlar að sækja um dvalarleyfi hér til að vinna t.d., kemur frá EES/EFTA, þá þarftu að sýna fram á að þú sért nú alla vega með lágmarksframfærslu. Svo ef þú ert erlendur sérfræðingur, ef ég man rétt, þarftu að sýna fram á að þú sért með a.m.k. milljón á mánuði til þess að geta komið hingað. Allar virðast þessar tölur vera úr lausu lofti gripnar og eins og kemur fram virðist ekki gert ráð fyrir því t.d. að þú þurfir að eiga eða leigja þak yfir höfuðið. Þær tölur sem ég hef séð um lágmarksframfærslu eru upp á 270.000 en miðað við hvernig leigumarkaðurinn er í dag þá áttu ekki fyrir mikið öðru en bara vatninu úr krananum þegar þú ert búinn að borga þetta. Þurfum við ekki að setja alvöruviðmið sem eru byggð á raunveruleikanum, hv. þingmaður?