Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

almannatryggingar.

568. mál
[16:26]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið, athyglisvert svar. Kannski hefur ríkisstjórnin hreinlega ekki efni á því að vita hvað það kostar fólk að lifa en kannski væri ágætt að þau vissu það. En mig langaði aðeins að ræða við hv. þingmann um þessa aðferðafræði sem ríkisstjórnin virðist nota, að koma alltaf hérna í desember og segja: Já, við erum kannski til í að spá í einhverja svona desemberuppbót eða bónus, já, kannski. Nota þetta, sem er fjármagn til verst setta hópsins í landinu, sem einhvers konar samningsatriði í þinglokum og annað. Þau voru þó alla vega aðeins fyrr í þessu ár og komu með þetta sem eigin tillögu, ekki okkar, að öryrkjar fengju þennan bónus, fengju þessa eingreiðslu. Að hún sé ekki bara hluti af kerfinu, að við þurfum að vera að eyða tíma hér á þinginu bara til að gera þetta að hluta af einhverri samningsstöðu ríkisstjórnar gagnvart stjórnarandstöðu — mér finnst bara svo ómannúðlegt að nota slíka hluti sem eru tengdir þeim sem minnst mega sín, í samningum. Rífumst um það hvað ríkasta fólkið á að borga eða um veiðigjöldin eða eitthvað slíkt. Mér finnst hrikalega ómannúðlegt að nota þetta sem hlut í samningaviðræðum.