Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

almannatryggingar.

568. mál
[17:20]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og ég get ekki verið annað en hjartanlega sammála. Mér er líka algerlega sama hver fær hólið fyrir það sem er gert. Mig skiptir mestu máli að við séum að laga það sem betur má fara. Þá skiptir ekki máli hvort þetta eru einn eða tveir aðilar sem detta út fyrir kerfið eða 1.000 eða 2.000 eða 10.000. Við eigum að laga það sem betur má fara og við eigum að styðja við þá sem minnst mega sín. Ef það þýðir að við sitjum frekar hérna í hliðarsölum þingsins og gefum góðar hugmyndir yfir til ráðherra og annarra þingmanna, ef það er betri leið, þá er ég algjörlega tilbúinn til að taka þær umræður hvenær sem er og gefa allar mínar bestu hugmyndir um það hvernig við getum bætt hlutina. Mér er alveg sama hver fær hólið og það er eiginlega bara best ef einhver annar fær hólið vegna þess að ég er einn af þeim sem finnst ekkert gaman að fá hól.