Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

almannatryggingar.

568. mál
[17:23]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og reyni að fara ekki hjá mér þrátt fyrir að hann hafi hælt mér fyrir ræðuna. Ég veit ekki hvort ég þori að segja hv. þingmanni hver rökin eru, hann gæti farið að hæla mér aftur. En rökin eru mjög augljós. Þau eru ekki þau að það sé of dýrt að sinna þessum 1.032 eldri borgurum. Þau eru ekki þau að þeir eigi það ekki skilið. Rökin eru mjög einföld: Hugmyndin um það að aðstoða þetta fólk líka kom ekki frá ríkisstjórninni. Það eru einu rökin. Kannski verðum við jafn heppin og í fyrra þegar þau höfðu engin rök fyrir því að hækka ekki frítekjumark öryrkja önnur en þau að sú hugmynd hefði komið frá stjórnarandstöðunni (Gripið fram í.) og svo koma þau allt í einu bara sjálf með þá tillögu núna. Kannski, ef við hristum tréð nógu mikið í ár, til að þau líti illa út, þá gera þau þetta sjálfkrafa á næsta ári. En ég er nú ekki alveg svo vongóður. Ég held að það muni taka nokkur ár í viðbót fyrir þau að fatta að það eru engin rök og að rökin sem þau eru að reyna að búa til — heildarendurskoðun, alls konar hlutir — halda ekki, þau hreinlega halda ekki. Þetta er því mjög einfalt, ríkisstjórnarflokkur ráðherra kom ekki með þessa hugmynd.