Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

532. mál
[19:08]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsöguna á nefndarálitinu. Það er eitt sem stingur í stúf þegar þetta frumvarp er skoðað. Það er í rauninni verið að bæta við tveimur nýjum málsliðum þar sem fjöldi samninga sem miðað er við á hverju ári er skilgreindur, annars vegar 145 samningar árið 2023 og hins vegar 172 samningar 2024. En í upprunalegri útgáfu þessa frumvarps var bráðabirgðaákvæði um að árið 2022 ættum við að vera komin upp í 172 samninga, en í raun eru einungis komnir 91, ef ég hef réttar tölur mér til leiðbeiningar. Nú er það náttúrlega ánægjulegt að það sé verið að setja aftur markmið um að ná 172 en þegar í frumvarpinu stendur „allt að“ 145 samningar þá gætum við í rauninni bætt við engum samningum og samt náð þessu markmiði, þ.e. 91 samningur á næsta ári væri enn þá „allt það“. Mig langar að spyrja hv. þingmann: Hvernig getur það fólk sem er að bíða eftir þessari þjónustu verið öruggt um að það sé verið að bæta í, þetta séu ekki bara fallegar tölur á blaði?