Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

532. mál
[19:12]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið og ég held að við getum öll verið sammála um að við viljum að sjálfsögðu að sem flestir fái slíka samninga. Mig langar að spyrja tveggja spurninga í seinna andsvari. Fyrri spurningin hefur að gera með það sem hv. þingmaður benti á, að sveitarfélögin spila mjög stórt hlutverk í þessu og heilmikið af fjármagninu inn í þetta kemur frá sveitarfélögunum. Mig langar að heyra í sambandi við umræður við gesti og umsagnir: Hvað sögðu sveitarfélögin varðandi það að fjármagna þessa viðbót upp á 54 samninga á næsta ári? Það var fyrri spurningin. Seinni spurningin hefur meira að gera með það hvernig við erum í rauninni að skilyrða þetta, við segjum að við gerum ákveðið marga samninga á hverju ári. Nú erum við með fullt af öðrum dæmum. Við stoppum ekki atvinnuleysisbætur um leið og 18.501 einstaklingurinn verður atvinnulaus. Við stoppum ekki fæðingarorlofið þegar 2.301 barnið verður til. Við stoppum ekki einu sinni bíómyndirnar þar sem sótt er um að fá endurgreiðslu eða rannsóknarstyrkina heldur gerum við það bara upp í fjáraukalögum ef vantar upp á. Við erum ekki að setja svona skilyrði um fjölda eins og hér þar sem þörfin er kannski miklu meiri, eins og hún virðist vera. Spurningin er þessi: Af hverju erum við með skilyrði hér en ekki í öðrum lögum sem veita á svipaðan hátt peninga úr ríkissjóði?