Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

532. mál
[19:43]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar bara að byrja á því að þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur fyrir mjög góða ræðu. Ég held að ég geti sagt það að ég er hreint og klárt algerlega sammála öllu því sem hv. þingmaður nefndi í ræðunni.

Mig langaði aðeins í tengslum við þetta að segja að hv. þingmaður nefndi bæði í nefndaráliti og í ræðu sinni að það hefði fallið dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir rúmu ári síðan þar sem bent var á að ekki væri hægt að skilyrða samninginn við það hvort fjármagnið hefði komið eða ekki. Í gær birtist grein í Kjarnanum eftir Katrínu Oddsdóttur mannréttindalögfræðing og Rúnar Björn Herrea Þorkelsson, formann NPA-miðstöðvarinnar, þar sem þau eru að skrifa um dóm sem féll í maí síðastliðnum við Mannréttindadómstól Evrópu. Þó svo að þessi dómur hefði upphaflega litið út eins og viðkomandi aðili hefði tapað málinu þá kemur fram í greininni, og mig langar að fara með það hér, með leyfi forseta:

„Í fyrsta lagi er skýrt tekið fram af hálfu Mannréttindadómstólsins að íslenskir dómstólar hafi brugðist skyldu sinni til að vega og meta raunveruleg réttindi og hagsmuni Arnars en þess í stað einblínt á sjálfstjórnarrétt sveitarfélagsins. Hér opinberast einn stærsti vandinn í baráttu fatlaðs fólks fyrir mannréttindum á Íslandi undanfarna áratugi, þar sem dómstólar hafa ítrekað forgangsraðað sjálfsstjórn sveitarfélaga á kostnað lögbundnum mannréttindum fatlaðs fólks.“

Mig langaði að spyrja hv. þingmann hvernig hv. þingmaður sér þennan dóm og þetta sem Mannréttindadómstóll Evrópu segir, hvernig það tengist þessu máli.