Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

532. mál
[20:00]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða yfirferð yfir nefndarálit og aftur verð ég að segja að ég er sammála því að það þarf svo sannarlega að laga margt á þessu sviði. Hv. þingmaður nefndi eitt af því sem ég hef nefnt hérna í andsvörum, þetta með kvótann á fatlað fólk, að hægt sé að segja að við ætlum að gera svo og svo marga samninga á þessu ári og svo og svo á næsta ári, en svo er bara sagt: Nei, fyrirgefðu, það er ekki til neinn peningur. Ekki gerum við þetta þegar einhver kemur á bráðamóttöku, ekki gerum við þetta þegar einhver kemur á heilsugæsluna. Ekki gerum við þetta þegar við erum að fá lyf og lyf endurgreidd t.d. Með alla þessa hluti er ekki bara allt í einu stoppað á ákveðnum tíma. Mig langar að heyra frá hv. þingmanni: Sér hann einhverja ástæðu til þess að réttlæta svona kvóta á fjölda þeirra sem eiga að fá slíka þjónustu?