Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

532. mál
[20:04]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Mig langar að vitna aðeins aftur í grein sem ég nefndi hér á undan í öðru andsvari en það er grein eftir þau Katrínu Oddsdóttur, mannréttindalögfræðing, og Rúnar Björn Herrera Þorkelsson, sem er formaður NPA-miðstöðvarinnar. Þau skrifuðu grein í Kjarnann í gær þar sem fjallað er um dóm Mannréttindadómstóls Evrópu sem féll 31. maí sl. og þar segir, með leyfi forseta:

„Í öðru lagi er afar mikilvægt að í dómnum er vísað til samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem þýðir að sá samningur er lagður til grundvallar í málum gegn Íslandi fyrir Mannréttindadómstólnum. Það sem meira er, þá vísar dómurinn til almennra athugasemda eftirlitsnefndar Sameinuðu þjóðanna um samninginn. Þetta eru stórfréttir í mannréttindabaráttu þessa þjóðfélagshóps. Þessi staðreynd felur í sér skýr skilaboð frá Mannréttindadómstólnum um að samningurinn skuli lagður til grundvallar í málum sem varða mannréttindi fatlaðs fólk, ólíkt því sem sést hefur í meðförum dómstóla hérlendis hingað til.“

Ef ég skil þetta rétt er Mannréttindadómstóll Evrópu í rauninni að segja okkur að þar sem við höfum samþykkt samninginn um réttindi fatlaðs fólks, þó svo við höfum ekki lögfest hann, þá skulum við fara eftir honum. Hvað finnst hv. þingmanni um þessa niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu?