Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

532. mál
[20:31]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Já, það fólk sem ekki er búið að fá NPA-samninga, fólk sem á rétt á þessum samningum samkvæmt lögum, samkvæmt núgildandi ákvæðum, samkvæmt dómi Mannréttindadómstóls Evrópu, lifir bara alls ekkert endilega góðu lífi. Það er margt hvert lokað inni á heimili sínu vegna skorts á möguleika á því að fá aðstoð til að gera þá hluti sem það vill gera, hvort sem það er að fara í skóla eða taka þátt í félagslífi eða jafnvel taka þátt í atvinnulífinu. Allt eru þetta hlutir sem þau sem hafa fengið þessa þjónustu tala um að hafi gjörbreytt lífi þeirra. Eins og hv. þingmaður benti á eru þetta ekki bara stjórnarskrárvarin réttindi heldur líka mannréttindi sem búið er að dæma, eins og hjá Mannréttindadómstól Evrópu, að íslenska ríkið eigi að uppfylla. En við virðumst ekki setja of mikinn forgang í það. Það þarf að sjálfsögðu að leysa fjármögnunarhlutann en ég held að það sé eitthvað sem hægt sé að leysa. Ef viljinn er fyrir hendi er hægt að finna leiðir til að fjármagna það, það er hægt að finna leiðir til þess kannski að endurskoða skiptinguna á kostnaðinum, það er hægt að tryggja að ríkið sé að setja nægan pening í þetta. Viljinn er allt sem þarf. En ég spyr mig orðið: Þessir fjörutíu og eitthvað einstaklingar sem bíða, eiga þeir kannski skaðabótakröfur á ríkið?