Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 49. fundur,  14. des. 2022.

Störf þingsins.

[10:50]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Hvað er barninu fyrir bestu? Það er ekki barninu fyrir bestu að hafa stytt framhaldsskólann niður í þrjú ár. Það eru ekki barninu fyrir bestu að þurfa að bíða mánuðum saman eftir geðheilbrigðisþjónustu. Það er ekki barninu fyrir bestu að aðgerðir stjórnvalda í loftslagsmálum séu ófullnægjandi og það er ekki barninu fyrir bestu að börn séu ekki spurð og að ekki sé tekið mark á þeirra skoðunum þegar teknar eru ákvarðanir sem þau varðar. Við lögfestum barnasáttmálann 20. febrúar árið 2013 og okkur ber skylda til að gera viðeigandi ráðstafanir á sviði löggjafar, stjórnsýslu, félags- og menntunarmála til að vernda börnin gegn hvers kyns ofbeldi, láta skoðanir þeirra heyrast, viðurkenna réttindi þeirra og bjóða þeim að borði í málum varðandi þau. Séu réttindi þeirra ekki virt mun það hafa skaðleg áhrif á framtíðina.

Við hér á Alþingi höfum tekið margar ákvarðanir sem hafa bein áhrif á líf barnanna. Hins vegar höfum við ekki spurt þau um sínar skoðanir á tilteknum ákvörðunum.

Þessi ræða var skrifuð af Brynjari Braga Einarssyni, Guðnýju Ólafsdóttur, Hjördísi Freyju Kjartansdóttur og Smára Hannessyni, sem eru fulltrúar ungmennaráðs UNICEF á Íslandi og ungmennaráðs Samfés. Eins og þið heyrðuð þegar ég flutti þessa ræðu eru börn fullkomlega hæf til að mynda sér skoðanir í málum sem þau varðar.