Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 49. fundur,  14. des. 2022.

úrvinnslugjald.

572. mál
[12:06]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um úrvinnslugjald, nr. 162/2002. Frumvarpið felur í sér nauðsynlegar breytingar vegna gildistöku laga nr. 103/2021, um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, lögum um meðhöndlun úrgangs og lögum um úrvinnslugjald. Einnig vegna frumvarps til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga árið 2023, sem lagt hefur verið fram á yfirstandandi þingi, og breytinga á íslensku tollskránni með auglýsingu nr. 128/2021, sem tók gildi þann 1. janúar sl. Í framlögðu frumvarpi fjármála- og efnahagsráðherra til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2023 er að finna tillögur um fjárhæð úrvinnslugjalds á tiltekna vöruflokka sem byggja á tillögum stjórnar úrvinnslusjóðs vegna aukinna skyldna framleiðenda og innflytjenda sem leiðir af fyrrnefndum lögum nr. 103/2021. Til álita kom að fella efni frumvarpsins inn í áðurnefnt frumvarp fjármála- og efnahagsráðherra en vegna umfangs frumvarpsins var að endingu talið fara betur á því að leggja það fram sem sérstakt frumvarp.

Megintilgangur frumvarpsins er að tryggja að álagning og innheimta úrvinnslugjalds á nýja vöruflokka verði möguleg og þá um leið að tryggja fullnægjandi virkni framlengdrar framleiðendaábyrgðar með því að uppfæra nauðsynleg ákvæði í lögum um úrvinnslugjald, nr. 162/2002, sem kveða á um þær vörur sem úrvinnslugjald leggst á, auk þess að uppfæra viðauka við lögin.

Þann 1. janúar nk. taka að fullu gildi lög nr. 103/2021. Lög þessi eru mikilvægur liður í innleiðingu hringrásarhagkerfis hér á landi og kveða m.a. á um nýjar áherslur í starfsemi úrvinnslusjóðs þar sem umfang framlengdrar framleiðendaábyrgðar er aukið. Breytingarnar fela m.a. í sér ríkari þátttöku framleiðenda og innflytjenda í kostnaði við sérstaka söfnun á ákveðnum úrgangsflokkum. Það er kostnaður sem sveitarfélögin hafa til þessa þurft að standa straum af. Aukin þátttaka framleiðenda og innflytjenda þýðir að almenningur og fyrirtæki geta í enn meira mæli skilað úrgangi í viðeigandi meðhöndlun án þess að greiða sérstaklega fyrir það. Með lögunum verður jafnframt tekin upp framlengd framleiðendaábyrgð á fleiri umbúðir en nú er raunin þar sem úrvinnslugjald verður lagt á gler-, málm- og viðarumbúðir til viðbótar við pappa-, pappírs- og plastumbúðir. Jafnframt er kveðið á um að breytingar varðandi rafhlöður og rafgeyma þess efnis að framleiðendur og innflytjendur standi undir hreinum kostnaði sem hlýst af söfnun, meðhöndlun og endurvinnslu allra notaðra iðnaðarrafhlaðna og iðnaðarrafgeyma sem safnað er og gildir það um allar notaðar rafhlöður og rafgeyma án tillits til þess hvaða dag varan er sett á markað. Undir þetta falla m.a. drifrafhlöður í rafbílum. Markmiðið er að tryggja að hægt sé að skila inn drifrafhlöðum í viðeigandi meðhöndlun að lokinni notkun án þess að bíleigendur þurfi að greiða fyrir meðhöndlunina sem jafnan er kostnaðarsöm auk þess að jafnræði ríki á markaði þegar kemur að ábyrgð og meðhöndlun.

Virðulegi forseti. Meginmarkmið frumvarps þessa er að tryggja virkni úrvinnslugjalds og þá um leið framlengdrar framleiðendaábyrgðar á þeim vöruflokkum sem mælt er fyrir um í lögum um úrvinnslugjald, nr. 162/2002, sbr. lög nr. 103/2021. Til að markmið laga um úrvinnslugjald um að skapa skilyrði fyrir myndun hringrásarhagkerfis hér á landi náist er nauðsynlegt að álagning úrvinnslugjalds á þá vöruflokka sem eiga að vera í framlengdri framleiðendaábyrgð raungerist að fullu þann 1. janúar 2023. Gert er ráð fyrir nokkrum breytingum til að ná því fram.

Í fyrsta lagi er lögð til uppfærsla á töflu í 6. mgr. 7. gr. laga um úrvinnslugjald vegna þeirra breytinga sem leiða af lögum nr. 103/2021, þar sem úrvinnslugjald verður einnig lagt á málm-, gler- og viðarumbúðir og í samræmi við breytingar á íslensku tollskránni. Í öðru lagi eru viðaukar við lög um úrvinnslugjald uppfærðir í heild sinni að teknu tilliti til breytinga sem leiða af lögum nr. 103/2001 og þeim breytingum sem orðið hafa á íslensku tollskránni. Með þessu er jafnframt verið að mæta ábendingum Ríkisendurskoðunar í skýrslu um starfsemi úrvinnslusjóðs frá því í ágúst síðastliðnum þess efnis að gætt sé betur að uppfærslu viðauka við lög um úrvinnslugjald samhliða breytingum á tollskrá. Lögfestar hafa verið umfangsmiklar breytingar á framlengdri framleiðendaábyrgð sem ætlað er að stuðla að myndun hringrásarhagkerfis hér á landi og því mikilvægt að viðaukar við lögin séu uppfærðir.

Þá er nauðsynlegt að gera breytingar á viðauka XVIII við lögin um álagningarstofn úrvinnslugjalds á umbúðir eða svokallað umbúðalíkan. Í lögum um úrvinnslugjald er gjaldskyldum aðilum gert skylt við tollafgreiðslu að gefa upp þyngd umbúða í vörusendingum til tollafgreiðslu samkvæmt staðfestum upplýsingum þar um. Ef staðfestar upplýsingar um þyngd umbúða vöru fást ekki er heimilt að greiða úrvinnslugjald í samræmi við reiknireglur sem koma fram í viðauka XVIII. Breytingar sem felast í framlengdri framleiðendaábyrgð á allar umbúðategundir kalla á að núverandi umbúðalíkan verði útvíkkað. Meginreglan er eftir sem áður a að gjald vegna pappírs-, pappa-, gler-, málm-, viðar- og plastumbúða verði ákvarðað á grunni upplýsinga sem innflytjendur og framleiðendur gefa upp við tollafgreiðslu um þyngd umbúða. Í líkaninu eru forsendur um samsetningu umbúða og umbúðaefnis fyrir vörur í hinum ýmsu tollskrárnúmerum. Umbúðalíkanið er í raun stór tafla með tollnúmerum, gerð söluumbúða og hlutfallstölum fyrir hin ýmsu umbúðaefni.

Í þriðja lagi eru gerðar minni háttar lagfæringar á hugtakanotkun í lögunum til að tryggja samræmi þegar lög nr. 103/2021 taka að fullu gildi um áramótin.

Að mati ráðuneytisins mun frumvarpið ekki hafa í för með sér kostnaðarauka fyrir ríkissjóð, almenning, stofnanir, sveitarfélög og fyrirtæki umfram það sem leiðir af gildistöku laga nr. 103/2021 og laga um breytingar á ýmsum lögum vegna fjárlaga árið 2023.

Virðulegi forseti. Ég hef hér rakið meginefni frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar — ætli það sé ekki frekar efnahags- og viðskiptanefndar?

(Forseti (ÁLÞ): Nei, umhverfis- og samgöngunefndar, það stendur hér.)

Ég held að við leggjum til að málinu verði vísað til efnahags- og viðskiptanefndar, sjáum hvernig það þróast í umræðum í þingsal.