Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 49. fundur,  14. des. 2022.

úrvinnslugjald.

572. mál
[12:15]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Villan fólst í rauninni í útprentun. Þetta voru svo stórar töflur að það komu einhver merki önnur en þær tölur sem áttu að koma. Ef hv. þingmaður ætlar að þýfga ráðherrann um excel-töflur og hvernig sé rétt að prenta þær út þá kemur hann að tómum kofanum. En ég vildi bara vekja athygli á því að þarna er fyrst og fremst um það að ræða, eins og hv. þingmaður vísar til, að þetta eru stórar töflur og við útprentunina getur ýmislegt gerst. Þar sem sá sem hér stendur er fullkomlega tæknifatlaður þá bið ég hv. nefnd og hv. þingmenn, ef þeir hafa áhuga á þessum þætti, að spyrja frekar einhverja sem þekkja til af hverju það getur verið erfitt að prenta svona skjal út. En ég held hins vegar að það hafi sjaldan gerst þegar menn eru með jafn umfangsmikið skjal og um ræðir, tollskrána, að hv. þingmenn hafi lúslesið það, mér finnst það ólíklegt. Ástæðan fyrir því að þetta tekur langan tíma er sú að menn eru að vanda sig við það að búa til þetta umbúðalíkan sem gerir það að verkum að þegar einhver flytur einhverja vöru inn sérstaklega þá eiga að vera þarna allar forsendur á bak við tollskrárnúmerið sem tengist framleiðendaábyrgðinni. Með öðrum orðum, þessi langi doðrantur, sem er náttúrlega við fyrstu sýn mjög flókinn, er til einföldunar, jafn skrýtið og það er. Hins vegar erum við búin að taka allar ákvarðanir sem snúa að efni máls í öðrum lögum. Þetta er fyrst og fremst bara vegna þess að við þurfum að ganga frá þessu svona, þ.e. þingið, en ákvarðanirnar sem hv. þingmaður hefur oft vísað til og rætt um ásamt fleiri þingmönnum, hafa verið teknar nú þegar.