Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 49. fundur,  14. des. 2022.

úrvinnslugjald.

572. mál
[12:23]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Það er kveðið á um heyrúlluplastið í bandorminum, þ.e. fjárhæðina, en þetta er samræming í útliti á viðaukum og leiðir einfaldlega af gjaldskrárbreytingum ef þær verða samþykktar. Ákvörðunin er því tekin í bandorminum en þetta er samræming. Þetta frumvarp mun ekki hafa í för með sér kostnaðaráhrif fyrir ríkissjóð, almenning, stofnanir, sveitarfélög og fyrirtæki umfram það sem leiðir af gildistöku laga nr. 103/2021 og laga um breytingar á ýmsum lögum vegna fjárlaga árið 2023. Það sem hv. þingmaður er hér að vísa til og ræða, sem er heyrúlluplast — það er ekki um skattlagningu að ræða í þessu tilviki. Þetta er í rauninni nákvæmlega sama hugmynd og þegar við, ég og hv. þingmaður, keyptum kók í Borgarnesi á sínum tíma og drukkum innihaldið úr flöskunni á staðnum — ef við keyptum flöskuna og fórum með hana út þá borguðum við fyrir umbúðirnar líka. Það er í rauninni bara verið að færa kostnaðinn framar, þ.e. á framleiðendur og innflytjendur, við að taka og helst endurvinna þær umbúðir sem um er að ræða, hvort sem það er plast eða annað sem er tekið tillit til þarna. Hins vegar eru ákvarðanir sem hv. þingmaður er hér að velta upp, eins og ég nefndi, í samræmi við þau lög og þau frumvörp sem hér liggja fyrir og þessir hlutir þar sérstaklega tilgreindir. Þá er ég vísa til heyrúlluplasts.