Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 49. fundur,  14. des. 2022.

úrvinnslugjald.

572. mál
[12:27]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Hvort sem hv. þingmanni líkar betur eða verr þá er heyrúlluplastið í tekjubandormi. Þar er álagningin og þar er umfjöllunin. (Gripið fram í.) Það er til samræmis sem þetta er sett þarna inn. Þetta er tæknilegt frumvarp, hefur ekki áhrif eins og ég sagði áðan. Ég get lesið það aftur fyrir hv. þingmann: Frumvarpið mun ekki hafa í för með sér kostnaðaráhrif fyrir ríkissjóð, almenning, stofnanir, sveitarfélög og fyrirtæki umfram það sem leiðir af gildistöku laga nr. 103/2021 og laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga árið 2023. Þetta er tæknileg útfærsla eins og ég var að reyna að rekja hér í framsögu minni. Síðan er það sem hv. þingmaður vísar til — kostnaðurinn lendir annars staðar núna en hann hefur gert áður. Hv. þingmaður er hér að vísa til stórs verkefnis. Ég hef kallað forystumenn Bændasamtakanna á minn fund, og þeir geta hitt mig núna í byrjun árs, m.a. til þess að ræða þessi mál. Ég vonast til þess, og þetta er ekki þannig að þú miðstýrir því úr ráðuneytinu, að við munum sjá hér, og það verður að gerast, fjölbreytta atvinnustarfsemi sem miðar að því að nýta þau verðmæti sem þarna eru. Til þess er leikurinn gerður. Við þekkjum hins vegar hvernig Ísland er þegar kemur að landbúnaði er mjög misjafnt hvernig búasamsetning er. Þetta er væntanlega einfaldast og auðveldast þar sem eru mörg bú á litlu svæði en það er ekki alls staðar. Þetta er bara eitt af fjölmörgum viðfangsefnum sem við þurfum að takast á við í tengslum við þessi mál og mörg önnur. Ég vildi óska þess að þetta væri eina verkefnið á borðinu, (Forseti hringir.) heyrúlluplast fyrir bændur, en svo er ekki. En við erum með augun á því og þess vegna viljum við hitta forystumenn Bændasamtakanna (Forseti hringir.) og það er gert ráð fyrir þeim fundi í byrjun árs. (Gripið fram í.)