Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 49. fundur,  14. des. 2022.

fjárframlög til fjölmiðla.

[15:09]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Virðulegi forseti. Það sem ég vildi nefna í þessu samhengi er að það sem kemur fram við fjárlagavinnuna og það sem er síðan að koma fram í fjölmiðlum í dag fer ekki alveg saman. Þess vegna er brýnt að ræða þetta hér. Það hefur engin áhrif á þingstörfin fram undan í dag að á þetta sé bent núna á lokametrunum fyrir jól þegar til stendur að afgreiða þetta með þessum hætti núna á lokametrunum fyrir jól, sem er auðvitað þvert á anda þess sem er verið að reyna að gera með tiltölulega almennu, gagnsæju kerfi til þess að styrkja rekstrargrunn fjölmiðla almennt, þar sem menn fara tiltekna leið til þess en ekki einhverjar hjáleiðir inn í fjárlaganefndina sjálfa.

Upphæðin í þessu samhengi er líka auðvitað eitthvað sem vekur upp spurningar. Við hljótum að geta setið hér undir örfáum ræðum um það þegar það er misræmi á milli þess sem fram kemur í fjárlagaumræðunni og í fjárlaganefndinni og þess sem er að skýrast í atburðarásinni í fjölmiðlum í dag. (Forseti hringir.) Það er ekki til of mikils mælst, jafnvel þó að mönnum liggi á að klára þingstörfin.