Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 49. fundur,  14. des. 2022.

Vísinda- og nýsköpunarráð.

188. mál
[21:22]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allsh.- og menntmn. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti 1. minni hluta sem ég undirrita.

Með frumvarpi þessu er lagt til að setja ný lög um Vísinda- og nýsköpunarráð í stað laga um Vísinda- og tækniráð, nr. 2/2003. Miklar breytingar hafa orðið á málaflokki vísinda og nýsköpunar þó að hlutverk Vísinda- og tækniráðs samkvæmt núgildandi lögum hafi staðið óbreytt. Samkvæmt frumvarpinu er ráðherranefnd um vísindi og nýsköpun undir formennsku forsætisráðherra ætlað að samræma stefnu stjórnvalda þvert á ráðuneyti og auka yfirsýn, skerpa framtíðarsýn og efla gagnsæi í stefnumálum vísinda og nýsköpunar og styðjast í því efni við virka ráðgjöf Vísinda- og nýsköpunarráðs. Mikilvægt er því að vel takist til við skipun hins nýja Vísinda- og nýsköpunarráðs.

Líkt og segir í frumvarpinu er markmið þess að styrkja langtímastefnumótun vísinda- og nýsköpunarmála með heildrænni nálgun á málaflokkinn, skýrari hlutverkum helstu aðila og öflugri sjálfstæðri gagnagreiningu, ásamt eftirfylgni og auknu samstarfi og samhæfingu milli ráðuneyta. Með frumvarpinu er gert ráð fyrir nýju Vísinda- og nýsköpunarráði sem verði sjálfstætt ráðgjafarráð sem eigi í reglubundnu samstarfi við ráðherranefnd um vísindi og nýsköpun. Lögð er áhersla á sjálfstæði ráðsins og að það verði öflug rödd í samfélaginu og styðji við faglega stefnumótun ráðuneyta. Fólk veljist í ráðið á grundvelli krafna um umtalsverða reynslu á vettvangi vísinda, nýsköpunar og tækni.

Mig langar núna að fjalla um samsetningu tilnefningarnefndar sem fjallað er um í 5. gr. frumvarpsins. Að mati 1. minni hluta endurspeglast áhersla á sérfræðiþekkingu hjá fulltrúum í Vísinda- og nýsköpunarráði ekki í fyrirhugaðri samsetningu tilnefningarnefndar samkvæmt 5. gr. frumvarpsins. Nefndin skal tilnefna fulltrúa í Vísinda- og nýsköpunarráð. Gert er ráð fyrir að forsætisráðherra skipi, að höfðu samráði við ráðherra sem fer með málefni vísinda og nýsköpunar, fimm einstaklinga í nefndina, tvo samkvæmt tilnefningu samstarfsnefndar háskólastigsins, einn samkvæmt tilnefningu samtaka fyrirtækja í atvinnurekstri, einn samkvæmt tilnefningu samtaka launafólks og einn án tilnefningar sem skal vera formaður. Þess skal getið að samkvæmt nefndaráliti og breytingartillögu meiri hlutans þá er gert ráð fyrir að sá sem fær tilnefningu samtaka fyrirtækja í atvinnurekstri sé samkvæmt tilnefningu Samtaka atvinnulífsins.

Fyrsti minni hluti tekur undir gagnrýni, sem fram kom í umsögnum um málið og frumvarpið við umfjöllun um málið í nefndinni, á aðkomu launþegahreyfingar að skipan í Vísinda- og nýsköpunarráð fyrir tilstilli tilnefningarnefndar. Í frumvarpinu er lagt til að samtök launþega tilnefni einn einstakling í tilnefningarnefnd. Bent var á að launþegahreyfingin hefur verið áhugalítil og nánast óvirk í nýsköpunarumræðu undanfarin ár.

Gagnrýnt var að enginn fulltrúi hugvitsfólks fengi að koma að tilnefningum í það ráð sem móta skyldi stefnu í málefnum hugvits og nýsköpunar. Jafnframt kom fram gagnrýni á að Samtök atvinnulífsins hefðu aðkomu að tilnefningarnefnd þar sem samtökin væru í litlum tengslum við sprota- og nýsköpunarfyrirtæki og umhverfi þeirra. 1. minni hluti tekur undir nefnda gagnrýni og telur það draga úr trúverðugleika tilnefninga í hið ráðgefandi Vísinda- og nýsköpunarráð.

Sérfræðiþekking fulltrúa í tilnefningarnefnd á málefnasviðinu, þ.e. á sviði vísinda, tækniþróunar og nýsköpunar, er forsenda þess að unnt sé að tryggja fullnægjandi sérfræðiþekkingu innan Vísinda- og nýsköpunarráðs. Að mati 1. minni hluta er ráðherranefndin, sem sett er saman af fagráðuneytum ásamt starfshópi ráðuneyta, rétti vettvangurinn til að meta þarfir vinnumarkaðarins miðað við ráðleggingar Vísinda- og nýsköpunarráðs. Til þess að tryggja megi fullnægjandi sérfræðiþekkingu fulltrúa í Vísinda- og nýsköpunarráði telur 1. minni hluti þörf á því að breyta ákvæði 2. mgr. 5. gr. hvað varðar þá aðila sem tilnefna fulltrúa í tilnefningarnefnd. Mikilvægt er að sem flestir sem tengjast vísindum og ekki síður nýsköpun komi að tilnefningu í ráðið, að ferlið sé opið sem flestum og sé ekki útilokandi. Það verður einungis gert með því að tryggja aðkomu samtaka tæknimenntaðra, samtaka hugvitsfólks og samtaka sprotafyrirtækja, enda erum við að tala hér um tilnefningu í Vísinda- og nýsköpunarráðs. Þá er mikilvægt að samtök tæknimenntaðra og samtök hugvitsfólks hafi aðkomu að tilnefningu í hið nýja Vísinda- og nýsköpunarráð. Með vísan til þess er lagt til að í stað samtaka launþega tilnefni samtök tæknimenntaðra einn einstakling í nefndina. Er í því efni m.a. vísað til umsagnar Verkfræðingafélags Íslands þar sem fram kemur að félagið sé eitt stærsta félag tæknimenntaðra á Íslandi. Þá verði einstaklingum í tilnefningarnefnd fjölgað um tvo og þeir verði þar með sjö. Samtök hugvitsfólks tilnefni einn einstakling og samtök sprotafyrirtækja einn í tilnefningarnefndina.

Breytingartillagan gengur út á það að samtök launafólks eigi ekki fulltrúa í tilnefningarnefndinni, að fulltrúum verði fjölgað úr fimm í sjö og í staðinn komi fulltrúar frá þremur félögum; Verkfræðingafélagi Íslands, Samtökum frumkvöðla og hugvitsmanna og Samtökum sprotafyrirtækja.

Samkvæmt 4. gr. frumvarpsins fer háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti með faglega umsýslu fyrir ráðherranefndina, undirbýr fundi Vísinda- og nýsköpunarráðs og ráðherranefndar og sinnir öðrum verkefnum við undirbúning stefnumótunar og greiningar- og upplýsingavinnu. Í umsögn Rannsóknamiðstöðvar Íslands – Rannís var hins vegar bent á að sjálfstæði ráðsins væri best tryggt með því að fagleg umsýsla með því, þar með talin upplýsingaöflun og greining á rannsóknum og nýsköpun, væri á hendi stofnunar utan Stjórnarráðsins, þ.e. að umsýslan færi ekki fram innan háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis. Þetta er mikilvægt atriði. 1. minni hluti tekur undir þessi sjónarmið og telur mikilvægt að tryggja sjálfstæði Vísinda- og nýsköpunarráðs en ólíklegt er að umsýsla með ráðinu innan ráðuneytis sem tengist málaflokknum stuðli að því. 1. minni hluti telur eðlilegra að umsýsla með ráðinu verði hjá Rannís, sem er stofnun utan ráðuneytis, þ.e. Rannsóknarmiðstöð Íslands, að þeir sjái um umsýsluna, svokallað „secretariat“ ef ég má sletta á erlendu tungumáli, og að þar verði gert ráð fyrir sérstakri skrifstofu ráðsins. Lögð er til breyting þess efnis. Samræmist það vel núverandi starfsemi Rannís enda annast miðstöðin gagnasöfnun og miðlun upplýsinga fyrir starfandi Vísinda- og tækniráð og nefndir þess og aflar upplýsinga og gagna varðandi þróun vísinda og tækni á alþjóðavettvangi, samanber 5. tölulið 1. mgr. 12. gr. laga um opinberan stuðning við vísindarannsóknir, nr. 3/2003. Þannig að raunverulega er verið að leggja það til að umsýsla eða skrifstofa hins nýja Vísinda- og nýsköpunarráðs verði hjá Rannís, ekki í ráðuneytinu sem er nú þegar að sinna svipaðri starfsemi samkvæmt lögum um opinberan stuðning við vísindarannsóknir.

Mig langar að fara aðeins yfir umsagnir sem bárust og ég fjallaði aðeins um í andsvörum hér áðan til að rökstyðja það að Samtök frumkvöðla og hugvitsmanna og Verkfræðingafélag Íslands og Samtök sprotafyrirtækja fengju fulltrúa í tilnefningarnefndina. Í umsögn Samtaka frumkvöðla og hugvitsmanna kemur fram, með leyfi forseta:

„Enginn fulltrúi hugvitsmanna fær að koma að tilnefningum í það ráð sem móta skal stefnu í málefnum hugvits og nýsköpunar. Þetta fyrirkomulag mun áfram útiloka aðkomu hugvitsfólks ráðinu, líkt og verið hefur. Hugvitsmönnum hefur markvisst verið haldið utan við alla stefnu í nýsköpun, bæði á vegum vísinda- og tækniráðs og á vegum síns ráðuneytis. Sú stefna virðist eiga að ríkja áfram samkvæmt þessum frumvarpsdrögum sem eingöngu þjónar málstað stórra hagsmunaaðila, en víkur þjóðarhagsmunum til hliðar. Með því er útilokuð hin mikla og fjölbreytta reynsla og þekking sem hugvitsmenn búa yfir; útilokað að lagfærðir séu þeir gallar stjórnkerfisins sem hindra nýsköpun og brotin jafnræðisregla stjórnarskrár með útilokun minnihlutahóps.“

Neðar segir í umsögn Samtaka frumkvöðla og hugvitsmanna, með leyfi forseta:

„Verði áfram litið framhjá hugvitsfólki við þessa lagasetningu og aðra stefnumótun væri æskilegt að breyta frumvarpinu á þann hátt að leggja ráðið niður. Betri kostur er fyrir stjórnvöld að hafa engan ráðgjafa, fremur en þann sem lítur framhjá grunnþörfum þjóðfélagsins.“

Þetta eru samtök sem óska eftir því að fá fulltrúa í tilnefningarnefnd sem ég tel engin rök fyrir því að neita. Ég tel mjög mikilvægt að við séum ekki að útiloka. Það er mikilvægt líka að þessi samtök frumkvöðla og hugvitsmanna, sem mér skilst að séu stofnuð 1976 og eiga sér töluverða sögu — og samtökin falla undir Samtök frumkvöðla og hugvitsmanna og KVENN sem er félag kvenna í nýsköpun. Innan þeirra félaga eru margir einstaklingar sem falla undir skilgreininguna í 5. mgr. frumvarpsins og eru með yfirgripsmikla þekkingu og reynslu á sviði vísinda, tækniþróunar og nýsköpunar. Þar eru bæði aðilar mikla menntun á sviði nýsköpunarfræða og með áratugareynslu af því að koma íslenskum hugverksverkefnum í framkvæmd. Útilokun þessa fólks frá nýrri stefnumótun er ekki vænleg til árangurs í tækniþróun og nýsköpun.

Ég skil ekki af hverju íslensk stjórnvöld leyfa ekki þessum hópi í þessu frumvarpi að hafa fulltrúa í tilnefningarnefnd. Ég sé þarna gamla íslenska útilokunarsamfélagið. Þarna er verið að útiloka ákveðinn hóp sem hefur mikinn áhuga á þessum málaflokki, óskar eftir að hafa mann í tilnefningarnefndinni og setja starfskrafta í þá vinnu sem í nefndinni felst, með þekkingu og brennandi áhuga á málinu. Það sorglega er að þeim finnst að þeir séu útilokaðir frá stjórnkerfinu. Þarna segir, með leyfi forseta:

„Þetta fyrirkomulag, mun áfram útiloka aðkomu hugvitsfólks að ráðinu, líkt og verið hefur. Hugvitsmönnum hefur markvisst verið haldið utan við alla stefnumótun í nýsköpun; bæði á vegum vísinda- og tækniráðs og á vegum síns ráðuneytis.“

Ég tel að Alþingi Íslendinga eigi að koma til móts við þessi samtök og segja við þau: Já, verið velkomin í tilnefningarnefndina, við óskum eftir starfskröftum ykkar í tilnefningarnefndina. Þannig að allir séu með í þessari vegferð sem og þeirri framkvæmd að skipa í Vísinda- og nýsköpunarráð. Það skiptir engu máli fyrir íslensk stjórnvöld að fjölga í nefndinni um tvo, ekki nokkru. Þetta gerir bara vinnuna miklu skemmtilegri, það koma fleiri að og allir eru með.

Önnur umsögn sem mig langar að fara yfir er frá Verkfræðingafélagi Íslands. Þar segir, með leyfi forseta:

„Í 5. gr nýs frumvarps „Tilnefningarnefnd" eru gerðar breytingar. Fjölgað er um tvo í nefndinni og skal annar vera tilnefndur af samstarfsnefnd háskólastigsins og hinn af „samtökum launafólks". VFÍ telur seinni breytinguna fráleita.“ — Þ.e. að samtök launþega eigi fulltrúa í tilnefningarnefnd. — „Eðlilegra væri að vísa til fagfélaga eins og til dæmis VFÍ sem er stærsta félag tæknimenntaðra á Íslandi með rúmlega 5.000 félagsmenn.“

Fulltrúar Verkfræðingafélagsins komu fyrir allsherjar- og menntamálanefnd og fylgdu umsögn sinni eftir og það var augljóst mál að þar er fólk sem hefur mikla þekkingu á því sviði sem hér er verið að fjalla um, m.a. var fulltrúi sem hefur átt sæti í Vísinda- og tækniráði og hún var mjög áfram um það að Verkfræðingafélag Íslands, sem situr í norrænu ráði sem lýtur að vísindum og nýsköpun og er með tengsl við evrópsk samtök á þessu sviði, væri með. Þau hafa mikla tengingu erlendis og mikla sérþekkingu og þau lýstu furðu yfir því að þau fengju ekki að vera með í tilnefningarnefndinni. Og tek ég hér undir þessi orð.

Ég vil einnig benda á umsögn Auðnu Tæknitorgs þar sem kemur svipað fram. Þar var sagt að það drægi úr trúverðugleika tilnefninga í hið ráðgefandi vísindaráð að launþegahreyfingin sé þarna inni en ekki t.d. samtök frumkvöðla og fagfólks á þessu sviði. Ég tel vera mikilvægt að við á Alþingi tökum tillit til þessara umsagna sem mér fannst að mörgu leyti vel unnar og vera skýrar hvað þetta varðar og á var að heyra að fólk byggi yfir mikilli og góðri þekkingu á því sviði sem það var að fjalla um.

Að framangreindu virtu, sem ég hef farið yfir, bæði í ræðu og svo með því að lesa upp úr umsögnunum, leggur 1. minni hluti til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingum:

Í fyrsta lagi: Í stað orðanna „Ráðuneyti sem fer með málefni vísinda“ í 4. gr. komi: Rannsóknamiðstöð Íslands. Og þetta á við um það sem lýtur að umsýslu, þ.e. að umsýslan fari fram hjá Rannsóknamiðstöð Íslands, Rannís, en ekki í ráðuneytinu. Ég ítreka að Rannís annast nú þegar gagnasöfnun og miðlun upplýsinga og er líka að afla upplýsinga og gagna varðandi þróun vísinda og tækni á alþjóðavettvangi með vísan til laga um opinberan stuðning við vísindarannsóknir. Þannig að þetta væri mjög eðlileg breyting og myndi auka sjálfstæði ráðsins til mikilla muna.

Í öðru lagi leggur 1. minni hluti til breytingu á 2. mgr. 5. gr. sem ég hef fjallað um töluvert, þ.e. að fjölgað verði í tilnefningarnefnd um úr fimm í sjö. Ég hef þegar farið yfir það og tekið fram hverjir það eigi að vera. Í b-lið breytingartillögu 1. minni hluta segir:

„Í stað orðanna „einn samkvæmt tilnefningu samtaka launafólks“ komi: einn samkvæmt tilnefningu Verkfræðingafélags Íslands, einn samkvæmt tilnefningu samtaka hugvitsfólks, einn samkvæmt tilnefningu samtaka sprotafyrirtækja.“

Ég tel að þetta muni auka mjög vægi tilnefningarnefndar, auka mjög sátt um Vísinda- og nýsköpunarráð og koma í veg fyrir að samtök eins og Samtök frumkvöðla og hugvitsmanna líði eins og þeim hefur liðið undanfarin ár, að þau hafi verið útilokuð frá aðkomu að Vísinda- og tækniráði. Við skulum vona að það verði ekki sama tilfinning hjá þessum samtökum, sem eru frjáls félagasamtök og mikilvæg eins og önnur félagasamtök á þessu sviði, að þeim finnist ekki að þau séu enn þá útilokuð varðandi tilnefningar og aðkomu að Vísinda- og nýsköpunarráði.