Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 50. fundur,  15. des. 2022.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2023.

2. mál
[13:52]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Útgjöld ríkisins eru nánast að verða stjórnlaus og við verðum að eiga fyrir þeim. Nú heyrist þetta í þriðja sinn hér í dag. Þessi orð hrutu af vörum formanns hv. efnahags- og viðskiptanefndar sem hér ásamt meiri hlutanum leggur til að falla frá tekjumöguleikum ríkissjóðs upp á nærri hálfan milljarð króna á næsta ári. Þessar tekjur átti að sækja til fiskeldisfyrirtækja ef heildarendurskoðun á þeirri atvinnugrein myndi mæla svo fyrir eftir áramót. En nei, þau telja hér, meiri hlutinn, greinilega að ríkissjóður sé svo stríðalinn að hann þurfi ekki á nærri hálfum milljarði að halda og falla því frá þessari tillögu. Nú, ef rétt er, sem hæstv. innviðaráðherra sagði, að þessa tillögu hefði þurft að samþykkja í þingsal fyrir 1. desember, þá verður að líta svo á að um sé að ræða vanrækslu af hálfu ríkisstjórnarinnar að sinna ekki því starfi að samþykkja slíkt fyrir 1. desember. En um þetta fer tvennum sögum í þingsal.