Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 50. fundur,  15. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[15:38]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Hér fer ekki saman hljóð og mynd hjá meiri hlutanum. Nú er verið að tala um að það sé verið að kalla eftir skoðun á stöðu fjölmiðla á landsbyggðinni en engu að síður er búið að leggja til 100 millj. kr. aukafjárveitingu til málaflokksins sem í gær var ætlunin að væri eyrnamerkt, að því er virðist, einum fjölmiðli sem óskaði eftir þessari tilteknu fjárhæð. En í dag á að bíða einhverrar endurskoðunar fjölmiðlanefndar og Byggðastofnunar um stöðu landsbyggðarfjölmiðla. Hér fyrr í dag var ákveðið að falla frá mögulegri tekjuöflun upp á næstum því hálfan milljarð vegna fiskeldis af því að niðurstaða endurskoðunar væri væntanleg eftir áramót, en hér má bara að kasta inn 100 milljónum og koma svo nokkrum dögum seinna og segja: Já, við leggjum til að það verði farið í einhverja skoðun.

Ég velti fyrir mér hvort hv. formaður fjárlaganefndar sé orðinn svona firrtur (Forseti hringir.) vegna allra þessara talna sem liggja á borðinu, að 100 milljónir til eða frá (Forseti hringir.) í einhverjar hugmyndir sem koma á síðustu metrunum séu bara litnar (Forseti hringir.) svona léttvægum augum. Að það skiptir ekki máli hvað gert sé.

(Forseti (DME): Ég minni hv. þingmenn á að virða ræðutímann sem er ein mínúta.)