Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 51. fundur,  16. des. 2022.

stjórnarmálefni ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

578. mál
[11:32]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Það er gott að sjá grænu ljósin hér á veggnum. Þetta er skýrslubeiðni sem er sett fram að gefnu tilefni. Fram hefur komið að félagar í Félagi starfsmanna Stjórnarráðsins fengu ekki upplýsingar um uppstokkun á málefnasviðum ráðuneytanna fyrir fram en uppstokkunin átti sér stað þegar ný ríkisstjórn tók við hér eftir síðustu kosningar með miklum áhrifum á kerfið allt. Það má draga þá ályktun að þar sem sérfræðingar í öllu kerfinu voru ekki meðvitaðir um fyrirhugaðar breytingar hafi þessi uppstokkun ekki verið undirbúin eða ígrunduð alvarlega. Telja þeir sem biðja um þessa skýrslu, sem er valinkunnur hópur, nauðsynlegt að almenningur fái upplýsingar um það hvernig að þessu var staðið. Við höfum nú þegar fengið áætlaðan kostnað við verkið og biðjum um að fá að sjá upplýsingar um starfsmannaveltu og líðan starfsfólks sem þarna starfar.