Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 51. fundur,  16. des. 2022.

húsaleigulög.

272. mál
[12:56]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. formanni velferðarnefndar fyrir yfirferðina yfir nefndarálitið og breytingartillögur meiri hluta. Það að takmarka skráningarskylduna, líkt og lagt er til af meiri hluta hv. velferðarnefndar, og eins og mælt er fyrir um í breytingartillögunum, kemur að einhverra mati til með að skaða frumvarpið eða málið verulega, og má í raun að einhverju leyti segja að það vinni gegn markmiðum frumvarpsins, þ.e. að fella út skráningarskyldu þeirra sem væru að leigja út húsnæði án þess að slíkt sé gert í atvinnuskyni, og er það þá algerlega óháð því hvort viðkomandi á eina, þrjár eða tíu íbúðir til útleigu ef viðkomandi telst ekki vera að leigja út í atvinnuskyni.

Hafa verður í huga að frumvarpið er nú lagt fram í þriðja sinn. Það er hluti af skyldum stjórnvalda vegna lífskjarasamninganna og býr mjög mikil vinna að baki því, mikið samráð, átakshópur, nefnd um endurskoðun á lögum sem skipuð var af félagsmálaráðherra, endurskoðun á löggjöf um húsaleigumál, víðtækt samráð. Því er ekki úr vegi að spyrja hv. þingmann hvort þær breytingartillögur sem nú er verið að leggja til, sem hafa veruleg áhrif, hafi verið bornar undir stóra aðila að lífskjarasamningunum eins og ASÍ og fleiri lykilaðila og hver viðbrögð þessara aðila hafi verið við þeim breytingartillögum sem nú eru að koma inn?