Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 51. fundur,  16. des. 2022.

húsaleigulög.

272. mál
[13:00]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að hafa leiðrétt mig með fjölda íbúða en þó ber að hafa í huga að fastanúmer getur verið það sama þó að íbúðirnar séu nokkrar, þ.e. rýmin sem leigð eru út. Stundum er verið að leigja út fjölda herbergja þó að þau séu undir sama fastanúmeri, en svo getur líka verið um að ræða verulega stórar fasteignir sem verið er að leigja út þannig að þetta geta verið miklir hagsmunir. Ég spurði hv. þingmann hvort þær breytingar sem þarna eru, sem og þær breytingar sem gerðar eru á kærumöguleikum, sem er líka verið að þrengja verulega af meiri hlutanum, hefðu verið bornar undir lykilaðila, samningsaðila að lífskjarasamningnum, lykilaðila sem hafa verið með í þessu verkefni í öll þessi ár. Ég ítreka að þetta er í þriðja sinn sem frumvarpið er lagt fram eftir vinnu átakshóps, eftir vinnu nefndar sem átti að koma að endurskoðun löggjafar um húsaleigumál, eftir samninga sem gerðir voru, svokallaða lífskjarasamninga.

Ég spyr því aftur og ég óska eftir svari við þessari spurningu: Var haft samráð við gerð þessara breytinga meiri hlutans við lykilaðila eins og ASÍ eða aðra sem komu að lífskjarasamningunum? Það er mikilvægt fyrir þingheim að fá upplýsingar um það.