Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 51. fundur,  16. des. 2022.

húsaleigulög.

272. mál
[13:35]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Frumvarp það sem við fjöllum um í dag er nú lagt fram í þriðja sinn. Í aðdraganda kjarasamningsviðræðna veturinn 2018–2019 skipuðu stjórnvöld átakshóp um aukið framboð á íbúðum og aðrar aðgerðir til að bæta stöðu á húsnæðismarkaði. Með þessu setti ríkisstjórnin af stað víðtækt samráð um húsnæðismál með aðkomu heildarsamtaka aðila vinnumarkaðarins, sveitarfélaga, félagsmálaráðuneytisins, fjármála- og efnahagsráðuneytis og forsætisráðuneytis. Þessi átakshópur setti fram 40 tillögur sem leggja átti til grundvallar við svokallaða lífskjarasamninga og voru þar stjórnvöld að koma að kjarasamningunum með ákveðnum tillögum og ákveðnum aðgerðum sem stjórnvöld voru skuldbundin að yrðu sett í framkvæmd á næstu árum. Félags- og barnamálaráðherra, sem þá hét, skipaði nefnd um endurskoðun löggjafar um húsaleigumál til að fylgja þessu öllu eftir. Það er auðvitað sá afrakstur sem við erum með í höndunum og höfum verið að vinna hér á Alþingi. En eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu þá tók frumvarpið minni háttar breytingum á milli framlagninga. Eins og áður segir var þetta frumvarp lagt fram í þriðja sinn hér í haust.

Það er ekki hægt að horfa fram hjá því, sem kemur fram í nefndaráliti meiri hluta velferðarnefndar, að meginefni frumvarpsins er að lögfest verði skylda leigusala til að skrá leigusamninga um íbúðarhúsnæði og breytingar á leigufjárhæð í gagnagrunn leigusamninga, svokallaðan húsnæðisgrunn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sem og til afskráningar leigusamninga að leigutíma loknum. Þetta virðist vera svona meginþungi þessa máls fyrir utan að reyna að bæta réttarstöðu leigjenda á ýmsan annan hátt, svo sem með kæruheimildum, kæruleiðum og þess háttar.

Einmitt vegna þessa þá vekur það nokkra undrun að líta augum breytingartillögur meiri hluta hv. velferðarnefndar sem virðast vera að taka nokkuð bitið úr frumvarpinu sjálfu. Það er verið að taka ákvörðun um það að þeir leigusalar sem ekki teljast hafa útleigu íbúðarhúsnæðis að atvinnu þurfi ekki að skrá eignir og leigusamninga í þennan gagnagrunn leigusamninga, húsnæðisgrunn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Það hefur verið tekin ákvörðun um það á lokametrum meðferðar málsins hjá hv. velferðarnefnd að undanskilja þann hóp og hefur þá stærð húsnæðisins og fjárhæð leigusamninga þar ekkert að segja heldur bara að einstaklingar, sem geta þá leigt tvær fasteignir óháð stærð þeirra og umfangi, þurfa ekki að taka þátt í þessum sameiginlega gagnagrunni. Vegna þessara breytinga veltir maður fyrir sér hvort þarna sé ekki verið að höggva stórt skarð inn í þennan mikilvæga gagnagrunn sem er jú ætlað að verja leigjendur á markaði sem eru í verulega bágri stöðu á Íslandi af því að húsnæðismarkaðurinn hefur verið byggður upp á þann hátt af stjórnvöldum undanfarinna ára að það er auðvitað séreignarstefna hérna sem hefur verið ríkjandi um áratugaskeið og lítil vernd fyrir leigjendur. Ég spurði formann hv. velferðarnefndar, hv. þm. Líneik Önnu Sævarsdóttur, út í þessar breytingar og hvort þær breytingar hefðu verið bornar undir lykilaðila að lífskjarasamningnum eins og verkalýðshreyfinguna, ASÍ, Öryrkjabandalagið og fleiri sem að þessu komu — komu að því að semja frumvarpið og voru samningsaðilar að lífskjarasamningunum — og kom það fram í svari hv. þingmanns hér rétt áðan að svo hefði ekki verið. Alþýðusamband Íslands hefði t.a.m. ekki verið spurt um áhrif þessara miklu breytinga á frumvarpið, á málið í heild og þá afstöðu Alþýðusambandsins til þess hvort verið væri að uppfylla skyldur stjórnvalda með tilliti til lífskjarasamninga.

Ég verð að segja að það vakti nokkra furðu að svo hefði ekki verið gert, enda má segja að það sé einmitt, eins og áður hefur komið fram, verið að taka svona mesta bitið úr frumvarpinu sem átti að vera meginefni og megintilgangur frumvarpsins með því að undanskilja þann stóra hóp sem er að leigja út húsnæði án þess að gera slíkt í atvinnuskyni. Þá er líka verið að þrengja verulega möguleika leigjenda til að kæra. Það er verið að stytta kærufrestinn niður í einn mánuð og það verður, að mínu mati, að bera þessar hugmyndir undir lykilaðila að lífskjarasamningnum. Vegna þessa hef ég tilkynnt formanni hv. velferðarnefndar, og geri það hér nú í ræðustól, að ég óska eftir því að þessu máli verði vísað til hv. velferðarnefndar milli 2. og 3. umr. til þess að það sé hægt að kalla eftir viðbrögðum frá þessum lykilaðilum við þessum viðamiklu breytingum meiri hluta hv. velferðarnefndar, enda varla hægt að segjast hafa staðið við atriði lífskjarasamnings ef vafi leikur á um það varðandi viðsemjendur.

Ég ætla ekki að hafa þessa ræðu lengri að sinni heldur bíð ég spennt eftir að heyra viðbrögð Alþýðusambands Íslands og fleiri við þessum breytingum.