Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 51. fundur,  16. des. 2022.

húsaleigulög.

272. mál
[15:41]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við breytingar á húsaleigulögum var ætlunin að koma böndum á villta vestrið á leigumarkaði en meiri hlutinn hefur hins vegar gert á frumvarpinu slíkar grundvallarbreytingar sem leiddu til þess að ég óskaði eftir að ASÍ yrði kallað fyrir hv. velferðarnefnd eftir 2. umr., enda hafði ekkert samtal átt sér stað um breytingarnar við þann hóp. Breytingarnar fella niður skráningarskyldu helmings alls leiguhúsnæðis á markaði en breytingartillögunni var af hálfu fulltrúa ASÍ lýst sem blautri tusku í andlit þeirra. Hins vegar var líka breyting á styttri kærufresti leigjenda sem hefur nú verið afturkölluð.

Hin mikla áhersla á skráningarskyldu hefur misst marks þegar helmingur leiguhúsnæðis er undanskilinn. Þrátt fyrir hvata fyrir leigjendur sjálfa að skrá samninga vegna húsnæðisstuðnings getur leigjandi ekki gert slíkt í óþökk leigusala þegar skráningarskyldan er fallin niður. Leigjandinn, sem eðlilega er í viðkvæmri stöðu, er ekki í neinni aðstöðu til þess að mótmæla því. Við í Samfylkingunni munum greiða atkvæði gegn þessari skaðlegu breytingu og af þeim sökum sit ég hjá við breytingar almennt.